Stjörnurnar bekkjaðar

Í dag sá ég spurt á Facebook hvort orðið bekkjaðar í fyrirsögn á Vísi í gær, „Telja að Barcelona-stjörnur Noregs verði bekkjaðar gegn Sviss“, væri nýyrði. Ég svaraði því til að orðið væri vissulega nýlegt en þó a.m.k. tíu ára gamalt og mjög algengt í íþróttamáli. Sögnin bekkja merkir þarna 'láta sitja á varamannabekk' og er notuð þegar leikmenn fá ekki sæti í (byrjunar)liði af ýmsum ástæðum, t.d. vegna lélegrar frammistöðu undanfarið, agabrots eða af öðrum ástæðum. Í umræddri frétt segir: „Eftir óvænt tap gegn Nýja-Sjálandi í fyrstu umferð HM kvenna í knattspyrnu virðist Hege Riise, þjálfari norska landsliðsins, ætla að sýna hver ræður og bekkja tvær af helstu stjörnum Noregs.“ Þarna er verið að láta stjörnurnar gjalda lélegrar frammistöðu.

En þótt germyndin bekkja hafi til skamms tíma verið mjög sjaldséð gegnir öðru máli um miðmyndina bekkjast. Hún kemur fyrir þegar í fornu máli í merkingunni 'beita þrýstingi' eða eitthvað slíkt – „Þorsteinn kvaðst eigi mundu bekkjast til þess ef henni væri eigi ljúft“ segir í Svarfdæla sögu. Hún er þekkt í málinu í merkingunni 'sækjast eftir, deila við e-n, stríða e-m, áreita, hrekkja e-n' eins og segir í Íslenskri orðsifjabók þar sem hún er talin tengjast nafnorðinu bekkur og sagt: „Merking so. að bekkjast hefði þá æxlast af 'að ryðja sér til rúms á bekk' e.þ.h.“ Oftast er miðmyndin notuð í sambandinu bekkjast (til) við. Í Íslendingi 1861 segir t.d.: „Af þessu hafa menn dregið, að hann muni eigi bekkjast til við Austurríki að svo komnu.“

Germyndin bekkja er þó ekki með öllu óþekkt. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hún gefin í merkingunni 'láta setjast á bekk', og í Íslenskri orðabók er hún einnig gefin í sömu merkingu með dæminu „bekkja e-n“. Lýsingarhátturinn bekkjaður kemur fyrir í óeiginlegri merkingu í Iðunni 1927: „Stuart Mill og nytsemikenning hans: sem mest hamingja fyrir sem flesta, varð að þoka úr sessi og boðberi ofurmenskunnar – Nietzsche – var bekkjaður í öndvegi.“ Merkingin er hins vegar bókstafleg í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga 1947: „í herforingjaveislunum voru örgustu mellur bæjarins, bekkjaðar með dætrum hinna fínustu borgara.“ En þetta eru nánast einu dæmin sem ég finn um germyndina fram til þessarar aldar.

Á síðustu árum hefur sögnin bekkja, einkum lýsingarhátturinn bekkjaður/bekkjuð, náð mikilli útbreiðslu í íþróttamáli í þeirri merkingu sem nefnd var hér að framan. Elstu dæmi sem ég finn um það eru frá 2010 en dæmunum hefur fjölgað mjög hratt og eru alls hátt á sjöunda hundrað í Risamálheildinni. Á tímarit.is finn ég hins vegar bara eitt dæmi, frá 2020, sem sýnir glöggt að þessi notkun er, enn sem komið er, að mestu bundin við óformlegt málsnið. En engin ástæða er til að svo verði áfram. Þetta er gömul og rétt mynduð sögn og merkingin er í fullu samræmi við upprunann og þá merkingu sem gefin er í orðabókum. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt dæmi um hvernig gamalt og nánast horfið orð vaknar til lífs á ný og uppfyllir nýja þörf.