Í fórum sér
Í gær var í Málvöndunarþættinum vakin athygli á orðalaginu í fórum sér í frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem sagði: „Tollverðir á Gardermoen flugvellinum í Ósló stöðvuðu íslenskan ríkisborgara síðdegis gær en hann reyndist vera með ofskynjunarsveppi í fórum sér.“ Væntanlega er óhætt að gera því skóna að þeim sem benti á þetta orðalag hefði þótt eðlilegra að sagt væri í fórum sínum enda er það hið venjulega orðalag. En orðalagið í fórum sér er þó þekkt – um það eru 117 dæmi á tímarit.is og 178 í Risamálheildinni. Vissulega er þetta þó lítill hluti af heildinni því að 10.825 dæmi eru um í fórum sínum á tímarit.is og 7.426 í Risamálheildinni. Dæmin um í fórum sér eru því aðeins 1,1% af heildinni á tímarit.is og 2,4% í Risamálheildinni.
Orðmyndin fórum er upphaflega þágufall fleirtölu af orðinu fórur sem merkti 'herklæði' í fornu máli og kemur bara fyrir í fleitölu – „hann gjörði út 60 þúsund vopnaðra riddara með öllum fórum“ segir t.d. í Ævintýrum frá um 1350. Í nútímamáli lifir orðið helst í sambandinu í fórum sínum/sér sem merkir 'eiga, hafa í vörslu sinni'. Þótt dæmin um í fórum sér séu fá er engin ástæða til annars en telja þau góð og gild enda á þetta samband sér skýrar hliðstæður í dæmum eins og í pungi sér sem kemur fyrir í fornu máli, t.d. í Snorra-Eddu: „Skíðblaðnir hafði byr, þegar er segl kom á loft, hvert er fara skyldi, en mátti vefja saman sem dúk og hafa í pung sér, ef það vildi.“ Orðið pungur merkir þarna 'skinnpoki', en þetta samband er horfið úr málinu.
Einnig má nefna hliðstæðuna í vasa sér sem 22 dæmi eru um um á tímarit.is og níu í Risamálheildinni, t.d „hún hefur heyrnartól tengd við tæki í vasa sér“ á Vísi 2017. Orðin pungur, vasi og fórur eiga það sameiginlegt að þau merkja einhvers konar „búnað“ sem fólk ber á sér eða með sér. Hér má nefna að Höskuldur Þráinsson taldi sambandið í vasa sér ótækt í nútímamáli í bókinni Setningar (2005) en Jóhanna Barðdal var á öðru máli í ritdómi sínum í Íslensku máli 2007 og benti á að nokkur dæmi væru um sambandið á netinu. Þetta bendir þó til að mat fólks á samböndum af þessu tagi – í vasa sér og væntanlega einnig í fórum sér – geti verið misjafnt og óvíst að allir málnotendur viðurkenni þau. Þau hljóta samt að teljast rétt mál.