Að selflytja vatn

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær sagði slökkviliðsstjórinn í Grindavík um vatnsflutninga að gosstöðvunum: „Ætli við verðum ekki með einhverja sex, átta bíla sem selflytja vatn upp.“ Það hafa komið fram efasemdir um hvort sögnin selflytja eigi þarna við. Það er enginn vafi á því að í sögninni felst að það sem flytja skal tiltekna leið er ekki flutt allt í einu alla leiðina, heldur er flutningnum skipt niður. Það er hins vegar ekki alveg ljóst hvað það er sem er skipt niður. Er það farangurinn, þannig að fyrst sé hluti hans fluttur alla leið og svo annar hluti og svo koll af kolli eða er það leiðin, þannig að fyrst sé allur farangurinn fluttur hluta leiðarinnar og áð þar um tíma, og síðan sé farangurinn fluttur áfram í næsta áfanga uns komið er á leiðarenda?

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er sögnin selflytja skýrð 'overføre fra det ene Sted til det andet, flytte enkeltvis el. Stykkevis' – þar virðist eingöngu átt við að farangrinum sé skipt niður. Í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð 'flytja e-ð í áföngum (í mörgum ferðum og aðeins nokkurn spöl í einu)'. Túlkun þessarar skýringar er ekki alveg ljós en eðlilegast er að skýra þetta svo að bæði farangri og leið sé skipt niður. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin skýrð 'flytja (e-n/e-ð) í áföngum eða hollum'. Þótt það sé e.t.v. hægt að túlka þessa skýringu á fleiri en einn veg má skilja hana svo að hún feli í sér báðar merkingarnar – með áföngum sé vísað til skiptingar leiðarinnar en með hollum sé vísað til skiptingar farangursins.

Sögnin selflytja vísar væntanlega í upphafi til flutnings fólks, áhalda og afurða milli sels og bæjar. Líklegra er að í þeim flutningum hafi því sem flytja þurfti verið skipt niður en að allt hafi verið flutt í einu í nokkrum áföngum. En það er ljóst að sögnin hefur verið notuð í báðum ofangreindum merkingum í meira en hundrað ár a.m.k. Í Iðunni 1889 segir: „það voru engin tiltök á því, að flytja allan farangurinn í einni ferð; varð því að marg-selflytja.“ Í Andvara 1895 segir: „er þar víðast kviksyndi og mjög örðugt að komast yfir, varð að selflytja hvern klár fyrir sig yfir kílana og lágu sumir í.“ Í Lögréttu 1934 segir: „Varð jeg því að selflytja strákana þrjá yfir álinn.“ Í þessum dæmum er ljóst að það er farangurinn sem er skipt niður.

En dæmi um skiptingu leiðarinnar eru líka ýmis. Í Þjóðólfi 1905 segir: „Sá er lengra hefði ætlað að ná, hefði orðið að láta flytja skeyti sín frá stöð til stöðvar eða selflytja þau, eins og kallað er.“ Þegar málið snýst um skiptingu leiðarinnar er selflytja þó oft aðeins notuð um einn (fyrsta eða síðasta) áfangann. Í Norðurlandi 1910 er sagt að „með samningi við Sam. fél. megi fá vörur fluttar frá Hamborg um Khöfn til Íslands“ en svo segir: „Fyrst og fremst bætir það ekki varninginn að selflytja hann til Khafnar.“ Í DV 1980 segir: „Þar á von bráðar að byggja þyrlupall til að ekki þurfi að selflytja sjúklinga, sem koma með flugi, frá Reykjavíkurflugvelli á spítala, heldur verði þeir fluttir milliliðalaust beint á slysamóttöku spítalans.“

Í seinni tíð virðist báðar merkingar sagnarinnar selflytja oft blandast saman, þannig að flutningsleiðin sem um er að ræða skiptist í áfanga og í einum áfanganna eða fleiri er farangrinum skipt niður. Þannig segir í Vikunni 1984: „Fagranesið kemst ekki nálægt landi og því verður að selflytja fólk og farangur í land með minni bátum.“ Í Degi 2000 segir: „Hann var fluttur til Íslands sjóleiðina, með flugvél að Fagurhólsmýri, þaðan á trukk að Skaftafellsá og selfluttur á dráttarvél í Skaftafell.“ Í Feyki 2001 segir: „Þá hafi þurft að selflytja áburðinn heim á bæina þar sem flutningsbílamir komust ekki yfir brúna.“ En áherslan virðist þó oftast fremur vera á skiptingu farangursins en skiptingu flutningsleiðarinnar í áfanga.

Að lokum má spyrja hvort eðlilegt sé að nota selflytja um vatn, á þann hátt sem gert er í fréttinni sem vísað var til í upphafi. Þar eru auðvitað ekki um að ræða einhvern fyrirframskilgreindan „farangur“ sem skipt er niður, heldur er átt við að farnar eru margar ferðir með vatn. Þótt sumum kunni e.t.v. að finnast orka tvímælis að nota selflytja þarna eru ýmis fordæmi fyrir því. Í Morgunblaðinu 1983 segir: „Þurfti að selflytja vatn á staðinn og fóru bílarnir tveir alls fimm ferðir á milli.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „Vatnsskortur tafði slökkvistörf og þurfti að selflytja rúm 80 tonn vatns á staðinn með tankbíl.“ Í DV 2003 segir: „Ungir Reykvíkingar tóku sig til í gærdag og selfluttu vatn úr Tjörninni yfir í bakgarð Alþingishússins við Austurvöll.“