Gerum kröfur – og þökkum fyrir okkur

Í gær var hér bent á að efnisútdáttur japanskrar kvikmyndar sem Smárabíó er að taka til sýninga væri á ensku á Facebook-síðu bíósins, og sama reyndist gilda um heimasíðu þess. Ég skrifaði bíóinu póst sem ég birti líka í athugasemd við umrædda ábendingu. Þar sagði m.a.:

„Þessi texti er ekki nema 34 orð og það ætti ekki að vera mikið vandamál að snara honum á íslensku. Mér finnst algerlega ótækt að hafa þennan texta eingöngu á ensku. Íslenskan á undir högg að sækja og það sem helst ógnar henni eru einmitt dæmi á við þetta – óþörf enskunotkun sem stuðlar að því að við verðum ónæm fyrir enskunni og hættum að taka eftir því að hún er notuð á ýmsum sviðum þar sem íslenska hefur verið notuð til þessa. Með þessu er dregið úr viðnámsþrótti íslenskunnar og stuðlað að hnignun hennar. Ég skora á ykkur að þýða þennan texta og hafa efnislýsingar á íslensku framvegis.“

Ég fékk fljótlega svar frá bíóinu:

„Þakka kærlega fyrir þessa ábendingu. Við höfum nú þegar fært þennan texta yfir á íslensku og munum reyna að bæta okkur í framtíðinni að hafa þessa texta eins og allt annað hjá okkur á íslensku.“

Ég svaraði aftur og sagði:

„Ég sé að nú er íslenski textinn kominn á vefsíðu bíósins. Ég þakka kærlega fyrir góð viðbrögð og treysti því að þið hafið þetta í huga í framtíðinni.“

Reyndar er textinn í Facebook-færslunni enn á ensku en það er þriggja daga gömul færsla sem kannski tekur því ekki að ergja sig út af lengur.

Þetta sýnir að það skilar árangri að gera athugasemdir. Óþörf enskunotkun stafar sjaldnast af „einbeittum brotavilja“, vilja til að sniðganga íslensku, heldur oftast af hugsunarleysi og kannski stundum svolitlu metnaðarleysi og tilhneigingu til vinnusparnaðar. Þess vegna er venjulega (en vissulega ekki alltaf) brugðist vel við þegar athugasemdir eru gerðar – það er fyrirtækum í hag að hafa viðskiptavini ánægða.

Hikið því ekki við að gera athugasemdir við óþarfa enskunotkun ef ykkur finnst ástæða til, en viðhafið auðvitað fyllstu kurteisi. En það er líka mikilvægt að þakka fyrir þegar brugðist er vel við ábendingum.