Að ná á

Fyrr í dag var hér spurt: „Hvaðan kemur orðalagið að ná á <einhverjum> í merkingunni að ná í viðkomandi (t.d. í síma)? Hver er hugsunin? Er blæbrigðamunur m.v. það síðarnefnda eða er merkingin nákvæmlega sú sama?“ Í svörum hefur komið fram að sumum finnst eðlilegra að nota þolfall, ná á einhvern, nefnt hefur verið að þetta gæti verið landshlutabundið, og svolítið mismunandi skoðanir um merkingarmun hafa komið fram. Mér fannst því ómaksins vert að skoða þetta nánar og komst að því að þetta orðalag virðist ekki vera gamalt í málinu. Í elsta dæminu sem ég finn um það, í Morgunblaðinu 1955, er notað þolfall: „Heyrðum við síðan ekki frá honum í hart nær 30 tíma, þrátt fyrir tilraunir okkar um að ná á hann.“

Tvö næstu dæmin eru úr Nýjum vikutíðindum, það fyrra frá 1967: „Loksins sagði hann: „Ég vil líka gjarnan ná á hana, og ég veit engu meira en þið, hvar hún er niður komin.““ Hitt dæmið er frá 1971: „Við getum aðeins lofað forsjónina fyrir að við skyldum ná á honum áður en hann kom henni í framkvæmd.“ Í Degi 1987 segir: „Það getur reynst erfitt að ná á honum og Dagur hefur fundið fyrir því eins og aðrir.“ En annars fer þetta orðalag ekki að sjást fyrr en eftir aldamót. Í Víkurfréttum 2001 segir: „Helga Hrönn Þórhallsdóttir, húðsjúkdómalæknir hefur verið með stofu þar síðustu ár en hægt er að ná á hana á fimmtudögum.“ Fjölda dæma má svo finna um þetta samband frá síðustu tveimur áratugum, á tímarit.is og í Risamálheildinni.

Eins og dæmin hér að framan sýna er ýmist notað þolfall eða þágufall með ná á. Þolfallið er þó miklu algengara og í raun alveg yfirgnæfandi nema í elstu dæmunum. Hugsanlega er þó einhver fótur fyrir því að landshlutamunur sé á fallnotkun í þessu sambandi – a.m.k. eru flest nýleg dæmi um þágufallið úr blaðinu Norðurslóð sem er gefið út á Dalvík. Það er ljóst að merkingin getur verið bæði 'ná sambandi við' (í síma eða tölvupósti) og 'hitta' (í raunheimum). Merkingarmunurinn á ná á og ná í er óljós og ekki mikill, en mér finnst þó ná á oft vísa til þess að það sé erfitt eða tilviljun að komast í tæri við fólk, og jafnvel að það hafi reynt að koma sér undan því að láta ná sambandi við sig. En þetta er alls ekki algilt.

Ég get hins vegar ekki svarað því hvernig þetta er tilkomið. Ef eingöngu væri notað þágufall mætti ímynda sér að þetta væri stytting úr ná tökum á eða eitthvað slíkt, en það gæti ekki skýrt þolfallið. Hugsanlega skiptir líka máli að ná í er miklu margræðara samband – það merkir ekki bara 'ná sambandi við', heldur líka 'sækja'. Þannig getur ég náði í Hönnu í gær bæði merkt 'ég náði sambandi við Hönnu' og 'ég sótti Hönnu'. Þetta getur líka merkt 'koma höndum yfir, hreppa' – ég náði í síðasta jakkann á útsölunni. Aftur á móti getur ná á varla merkt annað en 'ná sambandi við', annaðhvort rafrænt eða í raunheimum, og er í þeim skilningi „skýrara“ en ná í. Þetta er samt bara tilgáta, en hitt er ljóst að ná á er fremur nýtilkomið og færist í vöxt.