Hinsegin orðaforði

Á undanförnum árum hefur hin hefðbundna kynjatvíhyggja látið undan síga og nú er almennt viðurkennt að kyn, kyngervi, kynhneigð, kyntjáning og kynvitund sé miklu fjölbreyttari en áður var talið. Þessari fjölbreytni fylgir fjöldi nýrra orða sem koma til okkar erlendis frá, yfirleitt úr ensku, en talsvert hefur verið gert í því að finna og búa til íslenskar samsvaranir hinna erlendu orða. Í tilefni Hinsegin daga er rétt að minna á að Samtökin ‘78 hafa þrisvar efnt til nýyrðasamkeppni undir heitinu Hýryrði. Í fyrstu keppninni árið 2015 komu fram orð eins og eikynhneigð, dulkynja, vífguma, kærast, flæðigerva og bur. Í keppninni 2020 komu fram orðin stálp og kvár, og einnig samsetningarnar mágkvárog svilkvár. Keppnin 2023 er enn í gangi.

Í þessum hópi hafa birst ýmsir pistlar um hinsegin og kynsegin orðaforða. Þeir helstu eru: Tveir pistlar um hán, „Má bæta við persónufornafni“ og „Fornafnið hán“; „hinsegin“ um sögu og merkingarþróun orðsins hinsegin; „Leghafar og aðrir -hafar“, um orðið leghafi og gagnsemi þess; „Hýryrði“, um kvár, stálp og orð sem fram komu í nýyrðasamkeppninni 2020; „Bur“ um endurnýtingu orðsins bur í kenninöfnum; „Kynhlutlaus nöfn“, um það hvort íslensk mannanöfn geti verið kynhlutlaus; og „Er verið að úthýsa afa og ömmu?“ um misskilning eða rangtúlkun á ósk um kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldra í Hýryrðum 2023. Þessu tengist svo umræða um kynhlutlaust mál en fjölda pistla um það efni má finna á heimasíðu minni.

„Okkur í Samtökunum ‘78 er umhugað um að geta talað um veruleika okkar á íslensku“ segir í kynningu á yfirstandandi keppni. Það er grundvallaratriði að íslenskan þjóni öllum sem vilja nota hana, komi til móts við mismunandi hópa og lagi sig að breyttum hugmyndum og breyttu samfélagi. Ef fólk finnur sig ekki í íslenskunni missir það áhugann á því að nota hana og þá er hún feig. Þess vegna eigum við öll að fagna nýjum orðum á þessu sviði og leitast við að nota þau þegar við á. Sumum finnst erfitt að átta sig á öllum þessum nýju orðum og eru hrædd við að gera mistök en það er ástæðulaust. Það tekur tíma að læra á nýjan veruleika en það sem máli skiptir er að reyna – engum dettur í hug að ætlast til að við gerum allt rétt frá byrjun.