Posted on Færðu inn athugasemd

Hvers vegna er h-hljóð í Netflix?

Netflix er oft borið fram með h-hljóði vegna þess að við beitum (ósjálfrátt og ómeðvitað) íslenskum hljóðkerfisreglum á orðið. Samkvæmt þeim eru sérhljóð stutt ef tvö samhljóð fara næst á eftir. Í samsettum íslenskum orðum er misjafnt hvort þessari lengdarreglu er beitt á samsetninguna í heild eða á orðhlutana hvorn fyrir sig, og það skiptir máli ef fyrri hlutinn endar á samhljóði og sá seinni hefst líka á samhljóði. Í orði eins og vitlaus [vɪhtlœis] er reglunni yfirleitt beitt á orðið í heild og þess vegna fáum við stutt sérhljóð á undan tl, en í orðinu bitlaus [pɪːtlœis] er reglunni beitt á hvorn orðhluta fyrir sig, bit-laus, og þess vegna fáum við langt i [ɪː] því að aðeins eitt samhljóð kemur á eftir því innan orðhlutans.

Þetta er bara fyrri hluti skýringarinnar. Í Netflix koma saman tvö samhljóð, fl, og við beitum iðulega íslensku lengdarreglunni á orðið sem heild og fáum því stutt e. Þegar sérhljóð er stutt á undan samhljóðaklasa sem byrjar á p, t eða k kemur h-hljóð, svokallaður aðblástur, alltaf inn í orðið á eftir sérhljóðinu í íslenskum orðum. Það gerist t.d. í vitlaus sem er borið fram vihtlaus [vɪhtlœis] og við beitum þessari reglu líka oft þegar við berum fram erlend orð. Þess vegna er Netflix oft borið fram með hljóði, Nehtflix [nɛhtflɪks] í íslensku. Það er mjög algengt að við beitum íslenskum hljóðkerfisreglum á erlend orð, og aðblástur er reyndar eitt af því sem helst einkennir íslenskan hreim og mörgum veitist erfitt að losa sig við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.