Posted on Færðu inn athugasemd

Óvirk lagaákvæði um íslenskt mál

Í viðtali á Bylgjunni í gær minntist Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir á það að áður hefði það verið lagaskylda að fyrirtæki bæru íslensk nöfn en það væri nú fallið úr lögum, og sagði „Það sem einu sinni var getur orðið aftur“. Þau lög sem þarna er um að ræða eru Lög um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð frá 1903 (!) og þar er umrætt ákvæði reyndar enn að finna í 8. grein sem hljóðar svo: „Hver sá er stundar atvinnurekstur skal hlýða ákvæðum þeim, er hér fara á eftir, um nafn það, er hann notar við atvinnuna, […] enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.“ Nú er það verkefni Fyrirtækjaskrár að meta hvort firmanöfn samrýmist lögum, m.a. hvað varðar umrætt ákvæði.

Á vef Fyrirtækjaskrár segir þó að hún telji sig „aðeins leiðbeinandi aðila í málum er varðar firmaheiti“ og ákvarðanir hennar sé hægt að kæra til menningar- og viðskiptaráðuneytisins og síðan til dómstóla ef því er að skipta. Í leiðbeiningum segir: „Fyrirtækjaskrá leggur ekki lengur bann við því að menn noti erlend heiti í firmanafni sínu“ og enn fremur: „Fyrirtækjaskrá hefur á sl. árum og áratugum hins vegar verið að draga úr kröfum að þessu leyti, sérstaklega með hliðsjón af því að ekki eru lengur aðeins skráð íslensk firmaheiti í skrána. Það kemur þó alltaf upp öðru hvoru að neitað er um skráningu á heiti þar sem það verður talið brjóta það sterklega gegn íslensku málkerfi að ekki er talið unnt að heimila skráningu þess í opinberar skrár.“

Lögin eru sem sé óbreytt, en slakað hefur verið á framkvæmdinni hvað þetta varðar. En meðan lögunum var fylgt fastar eftir – að nafninu til – var reyndar sífellt verið að fara í kringum þau, með því að skrá eitt nafn í firmaskrá en nota annað í kynningum og auglýsingum. Þetta var alkunna og oft um það rætt. Þekkt dæmi var Veitingahúsið Álfabakka 8 hf. sem svo hét í firmaskrá, en almenningur þekkti undir heitinu Broadway. Þetta er því dæmi um lagaákvæði sem í reynd var ekki hægt að fylgja eftir, og ekki virðist hafa verið vilji fyrir því hjá stjórnvöldum að breyta lögunum þannig að ekki væri hægt að fara kringum þau á þennan hátt. Niðurstaðan hefur í staðinn orðið að láta eins og þetta ákvæði sé ekki til. Það er ekki heppilegt.

Annað dæmi um vísun til íslensks máls í lögum er í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu frá 2005 en þar segir í 6. grein: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Við þekkjum samt fjölda dæma um auglýsingar sem eru að meira eða minna leyti á ensku. Stundum geta auglýsendur e.t.v. skákað í því skjóli að þeir séu ekki að höfða til Íslendinga, t.d. á veitingastöðum þar sem mikill meirihluti gesta er erlent ferðafólk, en eftir sem áður gengur það gegn íslenskri málstefnu að auglýsa eingöngu á ensku. En það er með þessi lög eins og firmalögin, að mikið skortir á að þeim sé framfylgt. Það er til lítils að hafa ákvæði um íslensku í lögum ef okkur skortir vilja og getu til að framfylgja þeim.

Posted on Færðu inn athugasemd

Atvinnulífið gefur skít í íslensku

Fern samtök í íslensku atvinnulífi skrifuðu utanríkisráðherra þann 27. júní sl. bréf sem er allt á ensku. Þarna eru sem sé fern samtök í íslensku atvinnulífi að skrifa íslenskum ráðherra og íslensku ráðuneyti á erlendu tungumáli, þrátt fyrir að í fyrstu grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segi skýrt: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Í annarri grein sömu laga segir enn fremur: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs“ og í fimmtu grein segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Þetta er svo skýrt sem verða má.

Fyrir utan skýr lagaákvæði er í gildi þingsályktun um íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 2009 og þar segir í upphafi: „Alþingi ályktar að efla skuli íslensku sem opinbert mál og tryggja að hún verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Vissulega er ekki lagaleg skylda frjálsra félagasamtaka að nota íslensku í starfi sínu, en það verður samt að ætlast til þess að þau taki tillit til skýrra lagaákvæða um íslensku sem þjóðtungu á Íslandi. Það gengur gersamlega gegn anda laganna og íslenskrar málstefnu að íslensk samtök sendi íslenskum ráðherra bréf á ensku og er í raun alveg óskiljanlegt. Þarna er íslenskri tungu og íslenskri málstefnu sýnd slík lítilsvirðing að það er með fádæmum og algerlega óboðlegt að þessi samtök geri það.

Um þessar mundir er mikið rætt um það að íslenskan eigi undir högg að sækja, einkum vegna erlendra áhrifa af ýmsu tagi – bæði frá stafrænum miðlum og frá mikilli enskunotkun vegna fjölda erlend starfsfólks á vinnumarkaði og gífurlegs fjölda ferðafólks. Ábyrgð atvinnulífsins á þessu sviði er mikil – atvinnurekendur þurfa að leggja mun meiri áherslu á að kenna starfsfólki sínu íslensku og auðvelda því íslenskunám, auk þess sem þeir þurfa að sjá til þess að hvers kyns auglýsingar og merkingar séu á íslensku. Samtök atvinnulífsins hafa stutt þessa stefnu í orði, og fyrrverandi framkvæmdastjóri þeirra hvatti fyrirtæki oft til að nota íslensku. Þetta bréf kemur því eins og hnefahögg – eitt versta högg sem íslenskan hefur fengið lengi.

Auðvitað má segja að eitt bréf á ensku breyti engu – það sé ekki ætlað almenningi, fjalli um mjög sérhæft efni, og valdi því ekki auknum enskum áhrifum á íslenskt mál eða málsamfélag. Það er í sjálfu sér rétt, svo langt sem það nær. En málið snýst ekki um bréfið sjálft eða innihald þess, heldur um ástæður þess að samtök í íslensku atvinnulífi skuli kjósa að skrifa íslenskum ráðherra á öðru tungumáli en opinberu máli landsins. Með því er verið að lýsa frati á íslenskuna, segja að hún sé ónothæf sem alvöru tungumál. Á bak við liggur e.t.v. sú hugmynd bréfritara að meiri líkur séu á að tekið sé mark á bréfi sem er á ensku. Þá kann að styttast í að íslenskan verði að heimilismáli sem eingöngu er notað í óformlegum samskiptum en ekki til alvarlegra hluta.

Posted on Færðu inn athugasemd

DEleríum BÚbónis eða DeLEríum búBÓnis?

Í morgun var sagt frá könnun á framburði Íslendinga á snakkinu Bugles og það minnti mig á annað svolítið hliðstætt sem ég var að velta fyrir mér um daginn. Nú ætlar Borgarleikhúsið að taka söngleikinn „Deleríum búbónis“ eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni til sýninga á ný. Ég hef stundum undanfarið heyrt þetta borið fram með áherslu á öðru atkvæði – DeLEríum búBÓnis. Leikritið er litlu yngra en ég, var frumsýnt 1959, og þótt ég sæi það ekki á þeim tíma heyrði ég það mjög oft nefnt þegar lögin úr því voru flutt í útvarpinu. Ég er viss um að í þá daga bar ég þetta alltaf fram eins og hvert annað íslenskt orð, með áherslu á fyrsta atkvæði – DEleríum BÚbónis. Ég skal ekki fullyrða að sá framburður hafi verið notaður í útvarpinu, en held það þó.

Á þessum tíma, fyrir daga sjónvarps svo að ekki sé talað um netið, komu erlend orð aðallega til okkar á prenti. Þá var eðlilegt að fólk bæri þau fram samkvæmt íslenskum reglum og hefði t.d. áhersluna á fyrsta atkvæði – og áttaði sig jafnvel ekki á orðunum ef þau voru borin fram „rétt“. Ég man t.d. eftir því að nafn Haile Selassie sem var keisari Eþíópíu til 1974, og oft var nefndur í útvarpi þegar ég var strákur, var þar borið fram Hæle SeLASSí, þ.e. með áherslu á öðru atkvæði eftirnafnsins – sem ég held að sé réttur framburður. En ég skynjaði þetta alltaf sem Hælese Lassí, þ.e. skynjaði áherslulausa fyrsta atkvæðið í eftirnafninu sem lokaatkvæði fornafnsins, og fannst þarna vera undarlegt ósamræmi við það hvernig nafnið var á prenti.

Þetta er sem sé eitt af því sem hefur breyst, bæði með breyttri tungumálakennslu þar sem meiri áhersla er lögð á talað mál en áður, en fyrst og fremst auðvitað með meiri beinum kynnum okkar af erlendum málum í gegnum sjónvarp og net, og stóraukin ferðalög til útlanda og fjölgun útlendinga á Íslandi. Nú eru minni líkur en áður á því að við beitum íslenskum framburðarreglum, þar á meðal áherslu á fyrsta atkvæði, ósjálfrátt á erlend orð – eða orð sem líta út fyrir að vera erlend. Þess vegna er skiljanlegt að yngra fólk segi DeLEríum búBÓnis en við sem eldri erum höldum okkur við DEleríum BÚbónis. Í þessu er ekkert réttara en annað – þetta er bara áhugavert dæmi um það hvernig kynni af erlendum málum hafa áhrif á framburð.