Atvinnulífið gefur skít í íslensku

Fern samtök í íslensku atvinnulífi skrifuðu utanríkisráðherra þann 27. júní sl. bréf sem er allt á ensku. Þarna eru sem sé fern samtök í íslensku atvinnulífi að skrifa íslenskum ráðherra og íslensku ráðuneyti á erlendu tungumáli, þrátt fyrir að í fyrstu grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segi skýrt: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Í annarri grein sömu laga segir enn fremur: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs“ og í fimmtu grein segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Þetta er svo skýrt sem verða má.

Fyrir utan skýr lagaákvæði er í gildi þingsályktun um íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 2009 og þar segir í upphafi: „Alþingi ályktar að efla skuli íslensku sem opinbert mál og tryggja að hún verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Vissulega er ekki lagaleg skylda frjálsra félagasamtaka að nota íslensku í starfi sínu, en það verður samt að ætlast til þess að þau taki tillit til skýrra lagaákvæða um íslensku sem þjóðtungu á Íslandi. Það gengur gersamlega gegn anda laganna og íslenskrar málstefnu að íslensk samtök sendi íslenskum ráðherra bréf á ensku og er í raun alveg óskiljanlegt. Þarna er íslenskri tungu og íslenskri málstefnu sýnd slík lítilsvirðing að það er með fádæmum og algerlega óboðlegt að þessi samtök geri það.

Um þessar mundir er mikið rætt um það að íslenskan eigi undir högg að sækja, einkum vegna erlendra áhrifa af ýmsu tagi – bæði frá stafrænum miðlum og frá mikilli enskunotkun vegna fjölda erlend starfsfólks á vinnumarkaði og gífurlegs fjölda ferðafólks. Ábyrgð atvinnulífsins á þessu sviði er mikil – atvinnurekendur þurfa að leggja mun meiri áherslu á að kenna starfsfólki sínu íslensku og auðvelda því íslenskunám, auk þess sem þeir þurfa að sjá til þess að hvers kyns auglýsingar og merkingar séu á íslensku. Samtök atvinnulífsins hafa stutt þessa stefnu í orði, og fyrrverandi framkvæmdastjóri þeirra hvatti fyrirtæki oft til að nota íslensku. Þetta bréf kemur því eins og hnefahögg – eitt versta högg sem íslenskan hefur fengið lengi.

Auðvitað má segja að eitt bréf á ensku breyti engu – það sé ekki ætlað almenningi, fjalli um mjög sérhæft efni, og valdi því ekki auknum enskum áhrifum á íslenskt mál eða málsamfélag. Það er í sjálfu sér rétt, svo langt sem það nær. En málið snýst ekki um bréfið sjálft eða innihald þess, heldur um ástæður þess að samtök í íslensku atvinnulífi skuli kjósa að skrifa íslenskum ráðherra á öðru tungumáli en opinberu máli landsins. Með því er verið að lýsa frati á íslenskuna, segja að hún sé ónothæf sem alvöru tungumál. Á bak við liggur e.t.v. sú hugmynd bréfritara að meiri líkur séu á að tekið sé mark á bréfi sem er á ensku. Þá kann að styttast í að íslenskan verði að heimilismáli sem eingöngu er notað í óformlegum samskiptum en ekki til alvarlegra hluta.