Skilmálar á ensku í starfsauglýsingum
Athygli mín var vakin á því að á vefnum Alfreð.is þar sem laus störf eru auglýst þarf í sumum tilvikum að samþykkja ítarlega skilmála á ensku til að unnt sé að sækja um starf. Þetta á t.d. við um mörg störf hjá Reykjavíkurborg. Þar þurfa umsækjendur að haka við „Ég hef lesið og samþykki skilmála 50skills og skilmála Reykjavíkurborgar“ til að staðfesta umsókn. Skilmálar Reykjavíkurborgar eru ein og hálf síða (um 450 orð) á íslensku, skýrir og eðlilegir. En skilmálar 50skills eru 1800 orða skjal á ensku. Mér finnst forkastanlegt af fyrirtækjum og stofnunum að krefjast þess að umsækjendur samþykki skilmála sem eru eingöngu á ensku. Það er bæði í fullkominni andstöðu við íslenska málstefnu og óvirðing gagnvart umsækjendum.
Vitanlega má búast við því að fólk með takmarkaða íslenskukunnáttu sæki um sum auglýst störf og þess vegna væri ekkert við það að athuga og raunar sjálfsagt að hafa enska – og jafnvel pólska – útgáfu af skilmálunum líka. En enska útgáfan er sú eina sem er í boði, jafnvel í auglýsingum þar sem gerð er sérstök krafa um íslenskukunnáttu. Það er vitaskuld algerlega óboðlegt, og sérstaklega er ámælisvert að þetta skuli gilda um auglýsingar Reykjavíkurborgar, í ljósi þess að í Lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er lögð sérstök áhersla á ábyrgð opinberra aðila á því að halda íslenskunni á lofti: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“
En ekki er síður ástæða til að vísa í málstefnu Reykjavíkurborgar þar sem segir m.a.: „Vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, er lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þar er íslenska í öndvegi […].“ „Starfsfólk Reykjavíkurborgar skal nota íslensku í störfum sínum og stjórnsýslu nema þar sem aðstæður krefjast þess að það noti önnur tungumál […].“ „Íslenska skal vera meginsamskiptamál í þjónustu og vinnuumhverfi starfsstaða Reykjavíkurborgar. Þetta gildir líka um viðmót í tölvum, rafrænni þjónustu […].“ „Allt efni á vegum borgarinnar, sem gefið er út á erlendum tungumálum, skal jafnframt vera til á íslensku.“ Gengið er þvert gegn öllum þessum ákvæðum í umræddum starfsauglýsingum.
En fyrir utan það að skilmálar á ensku eru andstæðir íslenskri málstefnu og óvirðing við íslenskt mál eru þeir líka algerlega óboðlegir gagnvart umsækjendum sem hugsanlega hafa takmarkaða enskukunnáttu – og eru örugglega oftast óvanir að lesa enskt lagamál þótt þeir kunni enskt hversdagsmál þokkalega. Þarna er fjallað um viðkvæm mál eins og meðferð persónuupplýsinga og þar kemur m.a. fram að 50skills geymi og vinni úr „information that you send via email, messaging, in person at interviews and/or by any other method“, þ. á m. „personal details such as your name, social security number, email address, address, date of birth qualifications, experience, information relating to your employment history, skills and experience […].“
Þetta eru vitanlega atriði sem mikilvægt er að fólk skilji, og átti sig á því hvað það er að samþykkja. En ég hef takmarkaða trú á því að venjulegir umsækjendur lesi þennan enska texta vandlega, hvað þá skilji hann til fulls. Þess vegna er trúlegt að fólk sé þarna oft að samþykkja eitthvað sem það veit ekki hvað er – sem er vitanlega óviðunandi. Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvers vegna þessir skilmálar eru ekki þýddir á íslensku – það ætti hvorki að vera óvinnandi verk né óyfirstíganlegur kostnaður. Ég vonast til þess að Reykjavíkurborg og Alfreð breyti starfsháttum sínum og hætti að láta umsækjendur staðfesta skilmála á ensku. Það er lítilsvirðing við bæði íslenskuna og umsækjendur.