Drekkhlaðin skip

Lýsingarorðið drekkhlaðinn er skýrt 'hlaðinn mjög miklum farmi' í Íslenskri nútímamálsorðabók en uppruni þess hefur margoft verið ræddur bæði hér og í öðrum málfarshópum. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1983 greindi Gísli Jónsson frá samræðum sínum við mann sem var að velta uppruna orðsins fyrir sér, og sagði: „Við komum okkur saman um, að þá væri skip drekkhlaðið, ef nærri stappaði að því væri drekkt. Sem sagt, hleðslan er svo mikil að menn eru næstum því búnir að drekkja skipinu.“ Þetta samræmist því að í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt 'synkladt, synkefuld' og í Íslenskri orðabók er sögnin drekkhlaða skýrð 'hlaða (skip) svo mikið að nærri sekkur'.

Sögnin drekkhlaða er gömul í málinu. Í handriti frá því seint á 17. öld eða snemma á 18. öld segir: „Dreckhladid skip kalla austfirdsker mjög hladed. Item ad dreckhlada.“ Sögnin er fremur sjaldgæf í nútímamáli en lýsingarorðið drekkhlaðinn sem er upphaflega lýsingarháttur hennar er hins vegar algengt. En einnig kemur fyrir myndin dekkhlaðinn – um hana er á fjórða tug dæma á tímarit.is, það elsta í Alþýðublaðinu 1935: „Í morgun kl. um 10 leytið kom Ásbjörn frá Samvinnufélagi Ísafjarðar dekkhlaðinn hingað af síld.“ Væntanlega er þessi mynd alþýðuskýring, komin til vegna þess að fólk hefur ekki áttað sig á fyrri hluta orðsins drekkhlaðinn og tengt það við dekk – skilið orðið sem 'svo hlaðinn að flæðir yfir dekkið'.

Í umræðum hefur oft komið fram að fólk skilur fyrri hluta orðsins iðulega svo að þar sé vísað til skipverjanna – ofhleðsla skipsins sé líkleg til að sökkva því og drekkja þar með skipverjum. Í nútímamáli er sögnin drekkja líka nær eingöngu notuð um lifandi verur eins og sést á skýringu hennar í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'drepa (e-n) með því að sökkva honum í vatn, láta (e-n) drukkna.' Í Íslenskri orðabók er þó einnig gefin skýringin 'sökkva einhverju' og í Ordbog over det norrøne prosasprog er sögnin skýrð 'nedsænke, sænke, dukke', þ.e. 'færa í kaf, sökkva'. Í fornu máli eru nokkur dæmi um að drekkja skipum. Það virðist því nokkuð ljóst að áðurnefnd skýring Gísla Jónssonar á drekkhlaðinn er rétt – fyrri hlutinn vísar til skips en ekki skipverja.