Þetta er hægt
Hin mikla umræða sem hefur verið undanfarna daga um óþarfa og óæskilega enskunotkun á Íslandi hefur leitt ýmislegt í ljós sem vekur bæði ugg og bjartsýni. Það hefur komið mjög vel í ljós hversu ónæm við erum orðin fyrir enskunni í umhverfinu – tökum ekki eftir henni og finnst ekkert athugavert við hana fyrr en okkur er bent á hana. Eins og ég hef áður sagt held ég að þarna sé sjaldnast „einbeittur brotavilji“ að baki heldur hugsunarleysi, metnaðarleysi og kæruleysi – og jafnvel leti og tilhneiging til að spara. En það er uggvænlegt hversu útbreitt þetta meðvitundarleysi gagnvart enskunni, gagnvart því að alls konar merkingar, upplýsingar og textar séu á ensku, er orðið hjá mörgum fyrirtækjum og jafnvel hjá opinberum aðilum.
Mannauðssvið Reykjavíkurborgar segist hafa vitað af því um áramót að skilmálar 50skills, sem umsækjendum um störf hjá borginni er gert að samþykkja, væru á ensku. Í stað þess að fresta því að taka kerfi 50skills í notkun voru fyrirheit um að „þetta yrði komið í lag í sumar“ látin nægja en ekkert virðist hafa verið fylgst með því hvort svo væri – fyrr en vakin var athygli á málinu nú. Þetta rímar að vísu ekki við það svar sem ég fékk frá fyrirtækinu 50skills sem þykist ekkert hafa vitað af málinu fyrr en nú: „Við sáum þetta í fjölmiðlum í gær og fórum að sjálfsögðu beint í málið.“ En aðalspurningin er: Hvers vegna í ósköpunum hefur íslenskt fyrirtæki (sem 50skills mun vera, þrátt fyrir nafnið) skilmála sína eingöngu á ensku?
Fern samtök í atvinnulífinu skrifuðu utanríkisráðherra bréf á ensku um daginn og skýra enskunotkunina með því að tilgangur bréfsins hafi verið „að brýna ráðherra og veita upplýsingar svo að hún gæti að hagsmunum Íslands“ – sem er augljóslega yfirvarp, því að ef það hefði verið megintilgangur bréfsins hefði það að sjálfsögðu verið skrifað á íslensku. Innihaldslýsing á samlokum sem merktar eru ELMA, Eldhúsi og matsölum Landspítalans, er með stóru letri á ensku en undir er lýsing á íslensku með miklu minna letri. Sú skýring er gefin að „fyrirtækið sem framleiðir þessar samlokur fyrir okkur sé að merkja fyrir fleiri aðila“ – en af hverju hafði þessu ekki verið veitt athygli innan Landspítalans fyrr? Af hverju þurfti opinbera umræðu?
Svona mætti lengi telja upp dæmi um enskunotkun sem fyrirtæki og stofnanir láta viðgangast tímunum saman – oftast væntanlega í hugsunarleysi, ekki vegna þess að þau séu meðvitað að vinna gegn íslenskunni. Þeim finnst þetta kannski oft vera smáatriði sem skipti engu máli – og það er rétt, hvert þessara atriða um sig ræður engum úrslitum um framtíð íslenskunnar. En í sameiningu stuðla þau að meðvitundarleysi okkar um áhrif enskunnar og ryðja þannig brautina fyrir enn meiri ensku. Þetta er samt ekki bara á ábyrgð þeirra sem nota enskuna, heldur líka á ábyrgð okkar – við látum þetta viðgangast án þess að gera athugasemdir, oftast líklega vegna þess að við erum löngu hætt að taka eftir því enda enskan allt í kringum okkur.
Það jákvæða í þessu, sem vekur með manni smávegis bjartsýni, er að oft er brugðist vel við ábendingum og hlutunum kippt í lag þegar vakin er athygli á þeim. Mannauðssvið Reykjavíkurborgar ætlar að fylgja því eftir við 50skills að skilmálar fyrirtækisins verði þýddir á íslensku „ef þetta verður ekki komið í lag mjög fljótt“. 50skills segir: „Skilmálarnir eru komnir í þýðingu til þýðingarstofu og verða komnir með íslenska þýðingu innan skamms.“ Samtök atvinnulífsins ætla „að ganga úr skugga um að í þeim tilfellum sem enskan er notuð þá fylgi hún alltaf íslenskri frumútgáfu“. Landspítalinn segir: „Við sendum núna í morgun erindi og báðum um að samlokurnar okkar verði merktar á íslensku og það verður þannig framvegis.“
Þessi dæmi sýna okkur að þetta er hægt. Fyrirtæki og stofnanir vilja ekki fá á sig það orð að þau vinni gegn íslenskunni. Það er hægt að draga stórlega úr óþarfri og óæskilegri enskunotkun, oftast án mikils kostnaðar – og þó að það kosti stundum eitthvað er það bara óhjákvæmilegur kostnaður við að búa í litlu málsamfélagi. Það sem þarf er fyrst og fremst vitundarvakning. Við þurfum öll að átta okkur á því að það skiptir máli að nota íslensku þar sem þess er kostur. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana bera sérstaka ábyrgð í þessu efni og þurfa alltaf að spyrja sig: „Er nauðsynlegt að nota ensku hér?“ „Er ekki hægt að nota íslensku í staðinn, eða meðfram enskunni?“ Og við þurfum að vera dugleg við að vekja athygli á óþarfri enskunotkun.