Að stolta sig og hreykja sig

Ég sá á Facebook að athygli var vakin á fyrirsögn í DV í gær – „Afrekaði eitthvað sem fáir geta stoltað sig af“. Þessari fyrirsögn hafði fljótlega verið breytt í „Afrekaði eitthvað sem fáir geta hreykt sig af“ og að lokum í „Ræðir afrek sit[t]“ eins og hún er nú. Væntanlega stafa breytingarnar af því að gerðar hafi verið athugasemdir við fyrri gerðir fyrirsagnarinnar. Sögnin stolta er ekki daglegt mál, og sögnin hreykja tekur venjulega þágufallsandlag – hreykja sér. En þótt stolta sé sjaldgæf er hún til í málinu og meira að segja flettiorð í Íslenskri orðabók, með skýringunni 'stæra sig, hrokast, ofmetnast, hreykja sér, gorta, raupa'. Í Íslenskri samheitaorðabók eru samböndin stolta sig af og stolta sig yfir líka í merkingunni 'stæra sig af'.

Sögnin stolta er gömul í málinu – elsta dæmi um hana í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr handriti séra Páls Björnssonar í Selárdal frá seinni hluta 17. aldar: „tóku strax þessir biskupar eftir Hieronymi daga að stoltast, og það stolt hefur til þessa vaxið í páfadóminum.“ Annað dæmi er úr Ferðabók Tómasar Sæmundssonar frá fyrri hluta 19. aldar: „engin þjóð getur stoltað af því hún hafi öllum kennt“. Í ljóði eftir Steingrím Thorsteinsson segir „Þær stjörnur kunna að stolta af sér“, og sögnin kemur einnig fyrir í Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness: „Hún stoltaði yfir bróður sínum, sem hefði enn ekki uppgötvað þetta heimsfræga land hinna umkomulausustu drauma.“ Þarna eru notuð samböndin stolta af og stolta yfir, en ekki með afturbeygðu fornafni.

Örfá dæmi um stolta sig má finna á tímarit.is, það elsta í Fálkanum 1945: „Hér birtist enn ein mynd af Shelley Winter, og er hún að þessu sinni að stolta sig af heiðursskjali, sem maður hennar, M.P. Mayer, hlaut fyrir ágæta frammistöðu í stríðinu.“ Í Verkamanninum 1965 segir: „Og Íslendingar stolta sig enn af baráttu gegn sterkara valdi en stólsetumenn geta beitt þó vilja vanti þá ekki.“ Í Dagblaðinu 1977 segir: „Íslendingar hafa löngum stoltað sig drjúgum af því, að þeir noti ekki ættarnöfn.“ Í Helgarpóstinum 1984 er talað um „það eina sem við eigum á heimsmælikvarða og getum stoltað okkur af“. Það er því ljóst að þótt sögnin stolta (sig) sé vissulega sjaldgæf og hafi alltaf verið á hún sér langa sögu og virtir rithöfundar hafa notað hana.

En hvað um næstu gerð fyrirsagnarinnar sem svo var einnig breytt – hreykja sig? Fáein dæmi um þolfallið má finna á tímarit.is, það elsta í Morgunblaðinu 1947: „Hann er svo hálsliðamjúkur og þeir fjelagar allir, að þeir geta hreykt sig í hvaða átt sem þeim sýnist í það og það skiptið“. Í Þjóðviljanum 1988 segir: „Það er ekki til hrokafyllra fólk en þessir Skandínavar sem hreykja sig yfir aðra.“ Í Alþýðublaðinu 1993 segir: „Hún fór einnig á stefnumót með 33 ára gömlum kántrýsöngvara og hreykti sig af því sjónvarpi.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Bjarni hreykir sig líka mikið af kaffi staðarins.“ Í Fréttatímanum 2016 segir. „En fyrirtækið sem „keypti“ kvótann hreykir sig af því að hafa „tryggt sér aðgang að 100 þúsund tonnum af hvítum fiski.“

Í Risamálheildinni er 51 dæmi um hreykja sig / mig, fáein úr prentmiðlum til viðbótar þeim sem hér hafa verið nefnd en u.þ.b. 2/3 af samfélagsmiðlum. Notkun þolfalls í þessu sambandi virðist því færast í vöxt, en er ekki orðin mjög útbreidd og að mestu bundin við óformlegt málsnið enn sem komið er, og það er vafamál hvort hægt sé að líta svo á að þarna hafi ný málvenja skapast. Þess vegna hika ég við að segja að fyrirsögnin „Afrekaði eitthvað sem fáir geta hreykt sig af“ hefði mátt standa. Aftur á móti er ekkert við upphaflegu fyrirsögnina, „Afrekaði eitthvað sem fáir geta stoltað sig af“, að athuga, og hún er óneitanlega rismeiri en „Ræðir afrek sit[t]“ eins og fyrirsögnin er nú. Það hefði verið best að halda upphaflegri fyrirsögn.