Ferðaþjónustan getur ekki skotið sér undan ábyrgð

Á föstudaginn skrifaði formaður Samtaka ferðaþjónustunnar grein á Vísi til að svara grein Bubba Morthens í Morgunblaðinu daginn áður. Það er skiljanlegt að formaðurinn grípi til varna fyrir þá atvinnugrein sem hún er í forsvari fyrir, en ýmsar athugasemdir má þó gera við svarið. Formaðurinn segir: „Ég deili áhyggjum Bubba af íslenskunni og er fyrsta manneskjan til að styðja aðgerðir til þess að gera veg hennar sem mestan.“ Það er gott og blessað, en það er ekki nóg að styðja aðgerðir – formaðurinn er í stöðu til að beita sér fyrir aðgerðum og ég hef satt að segja ekki séð mikið af þeim innan ferðaþjónustunnar. Ég spurði formanninn t.d. um daginn hér á Facebook hver væri málstefna Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún reyndist ekki vera til.

Formaðurinn segir líka: „Eflaust eru einhverjir veitingastaðir með ensku sem fyrsta mál, en langflestir eru með matseðla sína á íslensku og ensku.“ Það er ekki bara að „einhverjir veitingastaðir“ – reyndar fjölmargir – séu með ensku sem fyrsta mál, heldur eru sumir með ensku sem eina málið á matseðlum. Og formaðurinn bætir við að „flestir þeir sem reka ferðaþjónustu [séu] fullkomlega meðvitaðir um það að íslensk tunga er hluti af menningu Íslands og þeirri upplifun, sem flestir ferðamenn eru að sækjast eftir.“ Ég get auðvitað ekki fullyrt að þetta sé rangt, en þessi meinta meðvitund skilar sér a.m.k. ekki í verki eins og glöggt kemur fram í nýjum skýrslum um íslensku í ferðaþjónustunni sem áður hefur verið fjallað um.

Formaðurinn segir líka: „Ég hafna því því algjörlega að mesta hættan sem steðjar að íslenskunni séu skilti á ensku sums staðar og að það komi fyrir að Íslendingar neyðist til að tala ensku á veitingastöðum eða hótelum“ og „Rætur vandans liggja ekki í auglýsingaskiltum á ensku eða því að þurfa stundum að panta kaffibolla á ensku í miðborg Reykjavíkur eða á Húsavík.“ Þarna er gert lítið úr málinu þegar talað er um að það séu „skilti á ensku sums staðar“, og það „komi fyrir að Íslendingar neyðist til að tala ensku“ og „þurfi stundum að panta kaffibolla á ensku“ (feitletranir mínar). Fólk sem fer á kaffihús eða veitingastaði, hvort sem það er í Reykjavík eða úti á landi, veit að það er miklu fremur regla en undantekning að það þurfi að nota ensku.

Skilti á ensku, og að þurfa að tala ensku við starfsfólk á veitingastöðum, er vissulega ekki eina hættan sem steðjar að íslenskunni. En þetta er samt stór þáttur sem óheppilegt er hvað formaðurinn gerir lítið úr. Eins og ég hef margsinnis skrifað um er það alvarlegasta í málinu tvennt. Annars vegar það hugsunarleysi eða meðvitundarleysi eða metnaðarleysi sem býr að baki því að hafa ýmsar merkingar og upplýsingar einungis á ensku. Hins vegar eru þau áhrif sem öll enskan í umhverfi okkar hefur á okkur – slævir tilfinningu okkar fyrir enskum áhrifum, veldur því að við hættum að taka eftir því að eitt og annað sem áður var á íslensku er nú á ensku, veldur því að okkur fer – ómeðvitað – að finnast sjálfsagt að nota ensku við ýmsar aðstæður.

Í stað þess að fara í vörn fyrir atvinnugrein sína væri nær að formaður Samtaka ferðaþjónustunnar skæri upp herör og beitti sér fyrir raunverulegum aðgerðum til að efla íslensku innan ferðaþjónustunnar. Fyrsta skrefið gæti verið að samtökin beittu sér fyrir vitundarvakningu innan greinarinnar og settu sér málstefnu þar sem kveðið væri á um að íslenska skuli notuð þar sem kostur er og enska aldrei notuð að óþörfu. Næsta skref gæti verið að samtökin beittu sér fyrir gerð kennsluefnis fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu þar sem það væri þjálfað í grundvallarorðaforða sem nýtist í mismunandi störfum. Einnig mætti hugsa sér að samtökin skipulegðu og stæðu fyrir íslenskunámskeiðum fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu, í samvinnu við málaskóla og skólakerfið. Verkefnin eru næg og ábyrgð ferðaþjónustunnar mikil.