Að kyrkja
Sögnin kyrkja er skýrð 'drepa (e-n) með því að taka um háls honum‘ í Íslenskri nútímamálsorðabók' og þetta er sú merking sem ég hef alltaf lagt í sögnina – að kyrking leið til dauða. En í seinni tíð er sögnin oft notuð í merkingunni 'taka hálstaki' án þess að það leiði til dauða – eða án þess að ætlunin sé að það leiði til dauða. Í Þjóðviljanum 1991 segir: „Mér líkar að ég fái að kalla hann Hómer og hann kyrkir mig nær aldrei fyrir það.“ Í Morgni 1993 segir: „Svo greip hann utan um hálsinn á mér og byrjaði að kyrkja mig.“ Í Fréttablaðinu 2002 segir t.d.: „Lögreglan kyrkti mig fyrir framan barnið.“ Í DV 2017 segir: „Hann fékk kast og byrjar að kyrkja mig.“ Fjölmörg nýleg dæmi eru um þessa notkun, t.d. í dómum.
Þegar sögnin er skilin þannig að kyrking leiði ekki endilega til dauða er ekkert óeðlilegt að á eftir henni komi til dauða eða til bana til að greina frá afleiðingunum. Þeim sem leggja þá merkingu í sögnina að hún feli óhjákvæmilega í sér dauða finnst slík viðbót óeðlileg, en dæmum um þetta hefur þó lengi brugðið fyrir. Í Dagskrá 1903 segir: „Prothero virðist hafa verið kyrktur til bana.“ Í Vikunni 1959 segir: „Hún hafði verið kyrkt til bana.“ Í Vísi 1976 segir: „Jimmy Hoffa, fyrrum leiðtogi atvinnubílstjórasamtaka Bandarikjanna, var kyrktur til dauða af leigumorðingjum.“ Í Tímanum 1993 segir: „Daginn eftir leiddi krufning í ljós að Trisha hefði verið kyrkt til dauða.“ Í Risamálheildinni má finna fjölda dæma af þessu tagi frá síðustu árum.
Sögnin kyrkja er skyld nafnorðinu kverk og grunnmerking hennar því í raun 'taka kverkataki'. Í orðabók Fritzners um fornmálið er hún skýrð 'gribe en i Struben (kverkr) for at kvæle ham, som om man vil kvæle ham'. Samböndin kyrkja til bana, kyrkja í hel og kyrkja til heljar koma líka fyrir í fornu máli. Í Bósa sögu segir t.d.: „Herrauður kyrkti sveininn til bana.“ Í Bjarnar sögu Hítdælakappa segir líka: „tekur um barka hans og kyrkir til þess, að hann var dauður.“ Þarna er ljóst að kyrkingin og dauðinn er aðskilið – kyrkingin er ferlið sem leiðir til dauðans. Með þeirri merkingu sagnarinnar kyrkja sem nú er orðin algeng, 'taka hálstaki', er því í raun og veru horfið aftur til upprunans og sögnin notuð á svipaðan hátt og gert var í fornu máli.