Er íslenskan í hættu?

Á Vísi í dag skrifar Haukur Arnþórsson athyglisverða grein sem tekur á mörgu. Ég get tekið undir margt af því sem hér segir en þó eru nokkur atriði sem mér finnst ástæða til að gera athugasemdir við eða hnykkja á.
  • „Nýlega var tilkynnt að íslenska yrði fyrsta tungumálið sem AI-gervigreindarkerfið ChatGPT styddi.“
Það er ekki rétt. ChatGPT vinnur með fjölmörg tungumál. Hið rétta er að íslenska var valin til að vera fyrst tungumál, utan ensku, sem yrði unnið með í sérstöku þróunarverkefni hjá OpenAI.
  • „Ef Íslendingar ætla að hafa ferðamennsku sem megin tekjulind verða þeir að virða það. Þess vegna þarf leiðbeiningar á ensku. Skilti á flugvöllum og öðrum stöðum í beinni ferðaþjónustu eru því á ensku, auk íslensku þar sem Íslendingar fara um.“
Það er engin andstaða við það að ýmiss konar leiðbeiningar og skilti séu á ensku, ef íslenska fylgir. Hins vegar eru oft gerðar athugasemdir við að eingöngu enska sé notuð – sem er oft gert, jafnvel þar sem Íslendingar fara um.
  • „Þótt við höfum á þessari öld fengið nýja erlenda kynslóð – sem verður mállítil á íslensku – þá þýðir það varla að íslenskan standi veikt. Ekki var það raunin á síðustu öld. Börn nýbúanna ganga í íslenska skóla og læra lýtalausa íslensku.“
Því miður er ég ekki viss um að þetta sé rétt. Aðstæður nú eru allt aðrar en á síðustu öld eins og hér hefur oft verið rætt. Ýmislegt bendir til þess að önnur kynslóð innflytjenda sé ekki nægilega sterk í íslensku – a.m.k. er það staðreynd að brottfall úr námi er miklu meira meðal barna innflytjenda en annarra.
  • „Þá veltir maður því fyrir sér hvort málvísindamennirnir veki upp þjóðernishyggju, sem blundar hjá hægra fólki og enn frekar hjá því vinstra megin (t.d. vegna hersins og andstöðu við vestræna samvinnu í NATÓ) – þjóðernishyggju sem gæti ógnað alþjóðasamvinnu þjóðarinnar.“
Þetta er raunveruleg hætta sem full ástæða er til að vekja athygli á og ég hef oft varað við.
  • „Mögulegt er að hræðslan við veikingu íslenskunnar leiði til andúðar á fólki af erlendu bergi brotnu, til dónaskapar við afgreiðslufólk sem ekki hefur fullt vald á málinu, til upphrópana á götu og jafnvel eineltis og árása.“
Þetta er líka rétt og ég hef oft rætt um þetta. Það er ótækt að mismuna fólki eftir íslenskukunnáttu eða láta það bitna á því að íslenskukunnátta þess er takmörkuð.
  • „það að fyrsta kynslóð innflytjenda mun aldrei tala góða íslensku hræðir marga, enda þótt ljóst sé að önnur kynslóðin muni gera það.“
Það er geysilega mikilvægt fyrir okkur að venja okkur við „ófullkomna“ íslensku. En eins og áður segir finnst mér því miður ekki ljóst að önnur kynslóð innflytjenda muni verða fullfær í íslensku.
  • „Verst af öllu væri ef hræðslan um örlög íslenskunnar leiddi af sér rasísk viðhorf og árásir á erlent fólk.“
Þetta tek ég heils hugar undir og það er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir að þetta gerist.