Athugasemd sem skilar (vonandi) árangri

Í gær skruppum við til Akureyrar, aðallega til að fara á Listasafnið og sjá hina stórkostlegu sýningu Ragnars Kjartanssonar, „Visitors“, sem við sáum fyrr í sumar en fannst ástæða til að sjá aftur – það er mannbætandi. Í leiðinni litum við inn á nokkrar aðrar ágætar sýningar í safninu. Þetta var sem sé mjög ánægjuleg heimsókn, þangað til á leiðinni út þegar mér varð litið á matseðil uppi á vegg í afgreiðslunni. Hann er nefnilega eingöngu á ensku. Nú þykist ég vita að margir útlendingar komi á safnið en ég á bágt með að trúa öðru en Íslendingar séu líka fjölmennir í hópi gesta. Þess vegna er alveg óboðlegt og raunar óskiljanlegt að hafa matseðilinn eingöngu á ensku, sérstaklega í afgreiðslu opinberrar stofnunar.

Það er sjálfsagt að geta þess að prentaðir matseðlar sem liggja frammi eru bæði á íslensku og ensku, og enn fremur verður að nefna að kaffihúsið er einkarekið en ekki á vegum Listasafnsins sjálfs. En það gildir einu í þessu samhengi – enski matseðillinn er áberandi í afgreiðslunni sem vitanlega er andlit safnsins. Ég skrifaði þess vegna safnstjóranum um þetta í morgun og bað hann að beita sér fyrir því að þessu yrði breytt. Hann svaraði umsvifalaust og sagði „ég skal biðja þau um að kippa þessu í liðinn“. Þetta eru lofsverð vinnubrögð og enn eitt dæmi um að það skilar árangri að gera athugasemdir við óþarfa og óæskilega enskunotkun. Nú bið ég Akureyringa og aðra safngesti að fylgjast með því hvort þessu verður ekki breytt á næstunni.