Byltitækni, byltinýjung – breytitækni, breytinýjung

Í morgun fékk ég fyrirspurn um það hvort til væri einhver viðurkennd íslensk þýðing á því sem kallast disruptive technology á ensku. Ég varð að viðurkenna að ég væri ekki alveg með það á hreinu hvað átt væri við með þessu og þurfti því að kynna mér málið. Í ljós kom að þetta er hugtak sem kom fram í grein árið 1995 og vísar til tilkomu nýrrar tækni sem er gerólík því sem áður var og gerbreytir markaðnum og/eða lífsháttum fólks. („Disruptive technology is an innovation that significantly alters the way that consumers, industries, or businesses operate.“) Annað samband sem notað er um þetta á ensku er disruptive innovation. Sem dæmi um þetta má t.d. nefna hjólið, ljósaperan, netið og farsíminn.

Þegar framfarir verða án þess að um byltingu í aðferðum eða tækni sé að ræða er talað um sustaining innovation eða sustaining technology. Það er t.d. þegar ný kynslóð af snjallsímum kemur fram, þegar ný útfærsla af tiltekinni bílategund er sett á markað, o.s.frv. („Sustaining innovation occurs when a company creates better-performing products to sell for higher profits to its best customers.“) Vissulega getur oft verið álitamál í hvorn flokkinn tiltekin nýjung falli og ekki ólíklegt að framleiðendur hafi tilhneigingu til að telja sínar nýjungar disruptive. En stundum geta þrep sem virðast vera liður í sömu þróun tilheyrt ólíkum flokkum – þannig er breytingin úr 3G í 4G talin hafa verið sustaining, en breytingin úr 4G í 5G disruptive.

Ég legg til að disruptive technology verði kallað byltitækni á íslensku, og disruptive innovation þá byltinýjung. Fyrri hlutinn bylti- tengir orðin augljóslega við byltingu sem er merkingarlega eðlilegt vegna þess að umrædd tækninýjung veldur gerbyltingu. Þessi orðhluti er sjaldgæfur í samsetningum en kemur þó fyrir í orðunum byltiafl (í jarðfræði) og byltiflokkar (í upplýsingafræði). Þarna er rótin bylt- en -i- er tengihljóð. Aftur á móti mætti nota breytitækni um sustaining technology og breytinýjung þá um sustaining innovation. Að vísu er venja að þýða sustainable sem sjálfbær á íslensku en það finnst mér ekki eiga við hér. Samsetningin er hliðstæð við hin orðin, en fyrri hlutinn breyti- er algengur í samsetningum.