Endurmenntun fyrir öll

Um daginn varð nokkur umræða á netinu um setningu í auglýsingu frá Endurmenntun Háskóla Íslands: „Endurmenntun er fyrir öll.“ Mörgum fannst þetta mjög óeðlilegt og vildu heldur hafa Endurmenntun er fyrir alla – nota karlkyn óákveðna fornafnsins en ekki hvorugkyn. Það er ekki óeðlilegt – karlkynið hefur alla tíð verið notað á þennan hátt í íslensku, í tilvísun til óskilgreinds hóps án tillits til kyns þeirra sem í hópnum eru. Við erum flest eða öll alin upp við þessa notkun karlkynsins og umrædd setning brýtur því gegn máltilfinningu margra, væntanlega mikils hluta málhafa. Það er mjög skiljanlegt og ég geri enga athugasemd við það – máltilfinningin er eitthvað sem við eigum fyrir okkur sjálf og eigum að gjalda varhug við afskiptum af henni.

Það er hins vegar ástæða til að gera athugasemdir við þau rök sem oft sjást fyrir því að þarna eigi að vera karlkyn. Oft er nefnilega spurt „öll hver?“ og gefið í skyn, eða sagt berum orðum, að þarna verði að vera eitthvert ósagt karlkynsorð undirliggjandi – það þurfi að vera hægt að hugsa sér eitthvert nafnorð sem geti komið á eftir óákveðna fornafninu. Oftast er orðið maður þá nefnt – það sé hægt að segja fyrir alla menn. En eins og ég hef áður skrifað um er það misskilningur að óákveðin fornöfn þurfi alltaf að styðjast við nafnorð, sögð eða ósögð. Þau geta staðið sjálfstæð, gera það oft, og dæmi eru um að amast sé við nafnorði með þeim: „Hvorugkyn eintölu eitthvað stendur sjálfstætt en eitthvert stendur með nafnorði“ segir Málfarsbankinn.

Látum samt svo vera að það þurfi að vera hægt að hugsa sér nafnorð sem geti staðið með fornafninu. Þá er samt ljóst að í dæminu frá Endurmenntun getur það varla verið maður því að Endurmenntun fyrir alla menn hljómar mjög óeðlilega. Það skánar ef lýsingarorði er bætt inn – Endurmenntun fyrir alla áhugasama menn – en er samt undarlegt. Það má reyna önnur nafnorð en mér hefur ekki tekist að finna neitt sem eigi vel við. Látum samt svo að þetta gangi, en gerum þá tilraun með hvorugkynið. Þar er vissulega erfitt að finna orð sem gæti átt við öll, en hins vegar er hægt að nota eintölu, segja Endurmenntun fyrir allt áhugasamt fólk Endurmenntun fyrir allt fólk, án lýsingarorðsins, hljómar óeðlilega eins og Endurmenntun fyrir alla menn.

En ef ósagt karlkynsorð er notað sem réttlæting fyrir því að nota karlkyn í Endurmenntun fyrir alla þá væri eins hægt að nota hugsanlega en ósagða hvorugkynsorðið fólk sem réttlætingu fyrir því að segja t.d. Endurmenntun fyrir allt áhugasamt. Auðvitað er ég ekki að leggja til að slíkar setningar verði viðurkenndar. Ég er bara að benda á að það er ástæðulaust að hugsa sér ósagt karlkynsorð í fyrir alla. Það þarf ekki önnur rök fyrir karlkyninu en þau að þannig sé íslenskan og hafi alltaf verið, og frávik frá því séu í andstöðu við málkennd alls þorra fólks. Það eru gild og þungvæg rök sem engin ástæða er til að gera lítið úr eða líta fram hjá. En það breytir því ekki að önnur rök geta verið fyrir breytingu – rök sem sumum kunna að þykja vega þyngra.