Er auðveldara að tala um tilfinningar á ensku en íslensku?

Í gær fór ég í langt viðtal hjá Gunnari Smára Egilssyni á Samstöðinni þar sem við ræddum um íslensku frá ýmsum hliðum – kynhlutlaust mál, íslensku sem annað mál, íslenskukennslu innflytjenda, íslensku í ferðaþjónustunni, íslenska málstefnu, íslenskan málstaðal, stöðu íslensku hjá unglingum, framtíðarhorfur íslenskunnar og fleira. Allt eru þetta efni sem ég hef margsinnis skrifað um og endurtek ekki hér, en eitt atriði kom þó upp sem ég hef ekki hugsað um áður. Það hefur oft verið nefnt að íslensk börn og unglingar tali stundum saman á ensku. Það hefur oftast verið talið að þetta gerist helst þegar börnin og unglingarnir eru að setja sig í sérstakar stellingar og tengt við leiki, ekki síst tölvuleiki. En kannski hangir fleira á spýtunni.

Gunnar Smári nefndi að hann hefði orðið var við að þegar unglingar þyrftu að segja eitthvað mikilvægt – eitthvað sem væri ígrundað, sem tengdist tilfinningum þeirra – skiptu þau iðulega yfir í ensku. Þegar ég fer að hugsa um það finnst mér það ekkert ótrúlegt. Kannski höfum við nefnilega vanrækt að kenna unglingunum að tala um sín hjartans mál á íslensku. Kannski höfum við vanrækt það vegna þess að við kunnum það ekki sjálf. Til skamms tíma voru ýmis mál sem tengjast tilfinningum hreinlega ekki rædd á Íslandi. Þau eru hins vegar iðulega rædd í erlendum bíómyndum eða öðru efni sem unglingarnir horfa á og þess vegna finnst þeim eðlilegt og þægilegt að grípa til enskunnar – þar finna þau fyrirmyndir sem þau geta notað.

Í nýlegum rannsóknum hefur komið fram að framhaldsskólanemar tengja íslensku gjarna við skyldu, leiðréttingar, orðflokkagreiningu o.þ.h. en enska tengist aftur á móti fremur afþreyingu, ferðalögum og skemmtun í huga þeirra. Kannski hefur afstaða samfélagsins og skólakerfisins til íslenskunnar því þau áhrif á unglinga að þeim finnst hún fjarlæg og vandmeðfarin – þeim finnst þau ekki eiga hlut í henni og eiga þess vegna erfitt með að nota hana til að ræða um eitthvað sem stendur þeim sjálfum nærri. En svo getur líka verið að ástæðan sé þveröfug – að unglingarnir noti ensku til að hleypa öðrum ekki of nálægt sér. Er sagt I love you frekar en ég elska þig vegna þess að það tjái tilfinninguna betur, eða vegna þess að það sé ábyrgðarlausara?

Hver sem ástæðan er finnst mér það mjög athyglisvert ef unglingar tala oft um tilfinningar og önnur viðkvæm mál á ensku. Forsendan fyrir því að íslenskan eigi sér framtíð er að unga kynslóðin noti hana á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst í umræðu af þessu tagi. Ef unglingum finnst þau ekki geta notað íslenskuna til náinna og alvarlegra samræðna um viðkvæm persónuleg mál bendir það til þess að þau kunni ekki nægilega vel á hana eða tengi sig ekki nægilega við hana, og þá er hætt við að þau missi trú á málinu til annarra nota líka. Auðvitað veit ég ekki hvort það ástand sem Gunnar Smári lýsti er algengt, en mér finnst þetta allavega umhugsunarefni. Þjálfum börnin okkar í að tala um tilfinningar sínar – á íslensku.