„Vörn fyrir veiru“
Meðan heimsfaraldur covid-19 gekk yfir á árunum 2020-2021 urðu til ýmis ný orð eins og kóviti, úrvinnslusóttkví, nándarmörk og mörg fleiri. Önnur orð sem höfðu verið lengi í málinu gengu í endurnýjun lífdaga – sum nánast óþekkt, eins og smitgát, smitrakning og fjarlægðarmörk, en önnur þekktari eins og orðið sóttkví sem var valið orð ársins 2020, bólusetning sem var valið orð ársins 2021, og mörg fleiri. Eitt síðarnefndu orðanna er veira. Elsta dæmi um orðið er í Orðabók Björns Halldórssonar frá 18. öld þar sem það er haft í merkingunni 'feyra, fúaskemmd' en að öðru leyti var það óþekkt í málinu þangað til Vilmundur Jónsson landlæknir stakk upp á því upp úr miðri 20. öld að taka það upp í staðinn fyrir tökuorðið vírus sem notað hafði verið í málinu um skeið.
Um þessa tillögu segir Vilmundur í greininni „Vörn fyrir veiru“: „Eftir nokkra íhugun komst ég að þeirri niðurstöðu, að helzt væri reynandi að smíða heitið með því að líkja frjálslega eftir hljómnum í hinu erlenda heiti, en sú orðmyndunaraðferð hefur fyrr og síðar gefið góða raun. Nægir að minna á forn orð eins og djákni, prestur, biskup og kirkja, sem öll eru þannig smíðuð, og slíkt hið sama tiltölulega ný orð eins og berklar, bíll, tékki og jeppi. […] [É]g hafnaði sem óíslenzkulegu hinu latneska sérhljóði í stofnatkvæði orðsins virus […]. Þótti mér nú sem valið stæði á milli orðanna væra og veira. Svo mjög sem ég hefði kosið hið fyrrnefnda orð vegna miklu nánari hljóðlíkingar, hafnaði ég því þó vegna lifandi sjúkdómsmerkingar þess, sem ég óttaðist, að valdið gæti ruglingi.“
Í greininni segir Vilmundur frá því að hann hafi hitt Halldór Halldórsson prófessor sem vann þá að söfnun og útgáfu nýyrða á vegum orðabókarnefndar Háskólans. Halldór hafði áður tekið hugmyndinni um veiru vel en hafði nú snúist hugur og sagði, að sögn Vilmundar: „Við ætlum að kalla það víru.“ Í framhaldinu segir Vilmundur: „Jafnharðan skildi ég, að hér mælti ekki maður af sjálfum sér, heldur sjálft páfavaldið í krafti stjórnskipaðrar nefndar, er fæst við að safna saman nýyrðum og gefa út í orðabókum á opinberan kostnað.“ Þarna snýst málið sem sé um ákveðið boðvald sem að mati Vilmundar er reynt að beita til að koma ákveðnu orði á framfæri. Hann bendir svo á að orðasmíð almennra málnotenda geti náð flugi án þess að boðvaldi sé beitt.
Í svari sínu til Vilmundar segir Halldór Halldórsson: „Landlæknirinn hefir það eftir málfræðingi sínum, að það sé tilgangslaust að ætla sér að breyta málinu. Ég get ekki skilið þessi orð á annan veg en þann, að ef einhver einstaklingur (t.d. landlæknir) eða einhver stofnun (t.d. orðabókarnefnd) tæki sér fyrir hendur að breyta einhverjum málsatriðum, t.d. orðum, þá væri sú tilraun dæmd til ósigurs. Þessi kenning er að vísu meira en hæpin, eins og hún er fram sett. Það mætti nefna mörg dæmi þess, að málsatriðum hefir verið breytt […].“ Halldór segir að ákveðið hafi verið „að taka upp í safnið orðið víra ásamt orðinu huldusýkill. Hins vegar hefði orðabókarnefnd ekki getað fallizt á að taka upp orðið veira.“ Hann rekur síðan ástæður nefndarinnar fyrir því að hafna veira en velja víra.
Orðið víra virðist eitthvað hafa verið notað fram yfir 1960 en er nú alveg horfið úr málinu, hvort sem grein Vilmundar drap það eða ekki. Boðvald orðabókarnefndar dugði ekki – orðið veira vann fullnaðarsigur. Ástæðan fyrir því að ég rek þetta hér eru þessi áhugaverðu skoðanaskipti um það hvort og þá hvernig hægt sé að breyta málinu – og hverjum sé gefið vald til þess. Vilmundur taldi ótækt – og vonlaust – að beita boðvaldi til þess en Halldór sá ekkert því til fyrirstöðu, þótt hann segði að vísu að það væri „miklu fyrirferðarmeiri þáttur í almennri þróun málsins, að það breytist en því sé breytt.“ En Vilmundur segir: „„Vitlaust mynduð“ orð eru ekki til önnur en þau, sem ekki er unnt að koma í munn þeim, sem þau eiga að mæla, né inn um eyru þeim, sem þau eiga að skilja.“