Vanræksla sveitarfélaga við setningu málstefnu

Í 130. grein Sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 2011 segir: „Sveitarstjórn mótar sveitarfélaginu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi sveitarfélagsins. Enn fremur skal koma fram hvaða gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á annarri tungu en íslensku.“ Feitletranir eru mínar.

Þetta er afdráttarlaus grein sem felur í sér skýlausa skyldu sveitarfélaga til að setja sér málstefnu, og kveður á um tiltekin atriðið sem þar skulu koma fram. Það eru tólf ár síðan þessi lög tóku gildi en þrátt fyrir það er það alger undantekning að sveitarfélög hafi farið eftir henni og sett sér málstefnu. Ég leitaði á vefnum að málstefnum 25 fjölmennustu sveitarfélaga landsins og fann aðeins tværmálstefnu Reykjavíkurborgar frá 2017 og málstefnu Dalvíkurbyggðar frá 2019. Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti fyrir tveimur árum „að hefja undirbúning við gerð málstefnu“ en ekki er að sjá að stefnan liggi fyrir. Tillaga um mótun málstefnu var lögð fram í bæjarstjórn Garðabæjar fyrir ári og vísað til bæjarstjóra en meira virðist ekki hafa gerst.

Haustið 2012 lagði Mörður Árnason fram á Alþingi fyrirspurn til innanríkisráðherra: „Hvaða sveitarfélög hafa nú þegar sett sér málstefnu, sbr. 130. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011?“ Í svari ráðherra sagði að öllum sveitarfélögum hefði verið send fyrirspurn þessa efnis. „Alls bárust svör frá 24 af 75 sveitarfélögum. Ekkert þeirra sveitarfélaga sem svöruðu erindi ráðuneytisins hefur sett sér málstefnu í samræmi við 1. mgr. 130 gr. laganna en í nokkrum tilvikum kom fram að framkvæmdastjóra sveitarfélags hefði verið falið að vinna að málstefnu fyrir sveitarfélagið. […] Innleiðing laganna mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma. Þau hafa sem sagt ekki gengið frá málstefnu en í einhverjum tilvikum er sú vinna hafin sem betur fer.“

Í skýrslunni Staða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli? sem var gefin út í fyrra kemur einmitt fram að árið 2012 hafi verið fjallað um málstefnu í fundargerðum ýmissa sveitarstjórna í framhaldi af fyrirspurn Innanríkisráðuneytisins þar um, en á þeim tíu árum sem liðu fram að gerð skýrslunnar var aðeins í örfáum tilvikum drepið á málstefnu í fundargerðum. Í nýlegum samþykktum ýmissa sveitarstjórna um stjórn viðkomandi sveitarfélags er liðinn „Að setja sveitarfélaginu málstefnu skv. 130. gr. sveitarstjórnarlaga“ að finna í upptalningu á verkefnum sveitarfélagsins, en ég hef ekki fundið nein merki þess að í öðrum sveitarfélögum en nefnd eru að framan sé vinna við gerð málstefnu hafin, þótt svo kunni vitaskuld að vera.

Það kom fram í svörum sumra sveitarfélaga við fyrirspurn Innanríkisráðuneytisins fyrir ellefu árum að gerð málstefnu væri ekki forgangsverkefni í innleiðingu sveitarstjórnarlaga og ráðuneytið sýndi því skilning eins og áður segir. En nú eru tólf ár liðin frá gildistöku laganna og aðstæður í þjóðfélaginu hafa gerbreyst, ekki síst vegna mikils fjölda fólks með annað móðurmál en íslensku sem býr og starfar í flestum sveitarfélögum, sem og vegna fjölda ferðafólks. Þess vegna er margfalt brýnna nú en áður að sveitarfélögin móti málstefnu. Aðgerðaleysi í þeim málum ber vott um metnaðarleysi og virðingarleysi gagnvart íslenskunni – og gagnvart landslögum. En þetta snýst í raun ekki síst um íbúana og réttindi þeirra.