Ljæ eða ljái, léði eða ljáði, léð eða ljáð?

Merkingin er ekki það eina sem er á reiki í sambandinu ljá máls á – sama gildir um beygingu sagnarinnar ljá. Hefðbundin beyging er ég ljæ þú ljærðhann / hún / hán ljær í framsöguhætti eintölu í nútíð, ég léðiþú léðir hann / hún / hán léði í framsöguhætti eintölu í þátíð, og léð í lýsingarhætti þátíðar. En algengt er að hljóðasamband nafnháttar haldi sér í þessum myndum og sagt sé ég ljái þú ljáir hann / hún / hán ljáir í framsöguhætti eintölu í nútíð, ég ljáði þú ljáðir hann / hún / hán ljáði í framsöguhætti eintölu í þátíð og ljáð í lýsingarhætti þátíðar. Í viðtengingarhætti nútíðar er é í öllum myndum í hefðbundinni beygingu (léði léðir léði, léðum léðuð léðu) en kemur einnig fyrir (ljáði ljáðir ljáði, ljáðum ljáðuð ljáðu).

Í Málfarsbankanum er amast við þessum tilbrigðum og sagt: „Hann ljær (ekki „ljáir“) máls á þessu. Hann léði (ekki „ljáði“) máls á þessi. Þeir hafa léð (ekki „ljáð“) máls á því.“ Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 sagði Jón G. Friðjónsson: „Sögnin að ljá er að því leyti óregluleg að nútíðarmyndin ljæ er ‘sterk’ í þeim skilningi að hún er mynduð eins og nútíð af sumum sterkum sögnum (; fláflæ; sláslæ). Það er því skiljanlegt að ‘veika’ nútíðarmyndin ljáir skuli stundum skjóta upp kollinum.“ Jón segir þó enn fremur: „Þessi breyting er ekki viðurkennd enda sér hennar hvergi stað í vönduðu ritmáli“ og „þeir sem skrifa í fjölmiðla og vilja vanda mál sitt ættu að nota sögnina að ljá eins og flestir kjósa að nota hana“.

Það er álitamál hvort lokaorðin þarna eiga rétt á sér. Í Risamálheildinni eru t.d. 844 dæmi um þátíðarmyndina léði en 328 um myndina ljáði, og 1451 dæmi um lýsingarháttinn léð en 1037 um myndina ljáð. Þótt dæmi um hefðbundnu beyginguna séu vissulega fleiri er tæplega hægt að halda því fram lengur að „flestir“ kjósi að nota hana, þótt svo hafi e.t.v. verið fyrir tæpum 20 árum. Hinar myndirnar eiga sér langa sögu, en fyrir utan eitt dæmi um myndina ljár frá miðri 19. öld sjást nútíðarmyndir með á þó ekki fyrr en undir miðja 20. öld: „Málgagn það, sem nú ljáir honum rúm fyrir rógskrifin“ segir í Degi 1945; „þá er sá maður almennt ekki litinn réttu auga vestan járntjalds sem ljáir nafn sitt til ályktunar í friðarátt“ segir í Nýja tímanum 1951.

Þátíðarmyndir með á verða aftur á móti algengar nokkru fyrr. Í Heimskringlu 1940 segir: „það skáldið ekki byrjaður að yrkja, er ljáði þeim verðugt lof.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „Roosevelt ljáði því eindreginn stuðning, að róttækari breyting yrði gerð á hlutleysislögunum.“ Í Vísi 1942 segir: „Ljáði eg söngnum sérstaklega eyra.“ Lýsingarhátturinn ljáð er enn eldri og algengari: „svo að ung stúlka gæti ljáð þeim eyra án þess að blygðast sín“ segir í Morgunblaðinu 1931. Í Morgunblaðinu 1936 segir: „og hafi þess vegna ljáð því samþykki sitt að Bretar veittu Kínverjum lán.“ Í Íþróttablaðinu 1940 segir: „Blöðin hafa ljáð þessum röddum eyra.“ Það er því löngu komin hefð á „óhefðbundnu“ beyginguna og hún hlýtur að teljast rétt mál.