Að beila
Sögnin beila er nýleg tökusögn, komin af bail í ensku sem merkir 'to stop doing something or leave a place before something is finished' þ.e. 'hætta einhverju eða yfirgefa stað áður en einhverju er lokið'. Elsta dæmi sem ég finn um hana er í DV 2000 en í ritdómi í Morgunblaðinu 2001 segir: „Málfar allra sagnanna er hversdagslegt og orðfærið kunnuglegt úr tali ungs fólks í dag með öllum sínum enskuslettum og vísunum til kvikmynda og tónlistar; persónur „tjatta“, „dissa“, „chilla“ og „beila“ þegar það á við.“ Sögnin beila hefur því verið orðin vel þekkt í talmáli um aldamótin. Hún virðist orðin rótföst í málinu – rúm 5000 dæmi eru um hana í Risamálheildinni, langflest af samfélagsmiðlum en á tímarit.is eru þó 80 dæmi um sögnina.
Notkun beila er nokkuð fjölbreytt og ekki hlaupið að því að umorða hana en reyna má t.d. 'hætta við' (t.d. að hitta einhverja), 'guggna', 'heykjast á', 'bregðast', 'svíkjast um' eða eitthvað í þá átt. Í Orðlaus 2004 segir: „Við ákváðum því að beila á hestaferðinni og fara í hlöðuna að undirbúa skemmtiatriði.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Ég vildi einhvern veginn ekki vera eins og allir hinir og beila á deiti.“ Í Monitor 2010 segir: „Í seinni seríunni fór fólk að beila á viðtölum sem var búið að bóka.“ Í Monitor 2012 segir: „Síðan ég beilaði á bókmenntafræðinni seinasta vor hef ég ekki lesið eina einustu bók.“ Í Fréttablaðinu 2016 segir: „Þegar við beiluðum á kjöti tók við áhugavert tímabil þar sem við þurftum að læra að nálgast mat upp á nýtt.“
Svo er líka talað um að beila á í merkingunni ‚hætta við að hitta‘ – Hann ætlaði að koma en beilaði á mér á síðustu stundu. Í öllum dæmunum hér að framan er sambandið notað með þágufalli, en í viðtali við Einar Lövdahl Gunnlaugsson í Morgunblaðinu 2018 segir hann: „Þá er yngra fólki mjög tamt að nota sögnina að beila, […] og þar er meira að segja kynslóðamunur á notkun hennar út frá málfræði. Mín kynslóð myndi tala um að beila á einhverju meðan yngri kynslóð, krakkar undir tvítugu tala um að beila á eitthvað þar sem sögnin tekur með sér þolfall.“ Þetta samræmist því sem kom fram í könnun Ríkisútvarpsins 2019 – fólk fætt milli 1975 og 1995 notar þágufall með sögninni, en fólk fætt fyrir og eftir þann tíma notar þolfall.
En beila er líka notuð án forsetningarliðar. Í Orðlaus 2003 segir: „Ég ákvað því að fara og hugsaði með mér – að minnsta kosti fengi ég góðan mat og gæti síðan „beilað“ eftir matinn.“ Í Orðlaus 2004 segir: „Ég ákvað því bara að beila og rölti út.“ Í DV 2012 segir: „Ég fór í vinnuskólann um sumarið og „beilaði“ alltaf þar um hádegi.“ Í Monitor 2013 segir: „Samt missa þær aldrei af helgi á b5 og myndu „beila“ alla skólavikuna frekar en að missa af föstudagsdjammi í bænum.“ Stundum kemur staðsetning á eftir beila sem merkir þá eiginlega 'stinga af til' eða eitthvað slíkt. Í DV 2004 segir: „Erpur fékk nóg af fylliríisrokklífinu, beilaði til Kúbu.“ Í Munin 2006 segir: „Ég ákvað þó síðan að beila bara heim.“
Sambandið beila út getur merkt 'hætta við' eða 'bakka út' – „Þannig að ég beilaði bara út“ segir í DV 2011. En oftast er það þó nokkuð annars eðlis, komið af bail out í ensku sem merkir 'to help a person or organization that is in difficulty, usually by giving or lending them money', þ.e. 'hjálpa einhverjum sem eru í vanda, venjulega með því að láta þau hafa fé'. Í DV 2010 segir: „Hvað varðar Illuga Gunnarsson þá er komið í ljós að hann þrýsti mjög eindregið á að Glitnir beilaði sjóð níu út.“ Í Stundinni 2017 segir: „Kostirnir voru að láta Glitni fara í þrot eða „beila“ hann út.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „hljóðmaðurinn varð að hringja heim í konuna sína og tilkynna henni að hann þyrfti að nota spariféð þeirra til að beila þessa fávita út.“
Þótt beila sé vissulega komin úr ensku er ekki hægt að segja að hún beri það sérstaklega með sér – það er ekkert útlenskulegt við hana. Það má t.d. bera hana saman við sögnina deila sem er vel þekkt og geila sem er sjaldgæf – allar þrjár hafa sams konar hljóðskipan, ófráblásið lokhljóð á undan -eila. Ef einhverjum finnst beila hljóma torkennilega er það því vegna þess að hún er ný, en ekki vegna þess að hún falli illa að málinu. Mér finnst engin ástæða til að láta orð gjalda uppruna síns – láta erlendan uppruna koma í veg fyrir að orð sem falla fullkomlega að íslensku hljóðkerfi séu tekin inn í málið. Mikil notkun sagnarinnar beila bendir til að hún þjóni ákveðinni þörf og engar líkur eru á að hún hverfi úr notkun. Mér finnst sjálfsagt að kalla hana íslensku.