Fyrir hliðina á
Ég var ekki fyrr búinn að skrifa um sambandið fyrir bakvið en annað hliðstætt samband kom upp í hendurnar á mér – fyrir hliðina á. Rúmlega þrítug kona skrifaði hér og sagðist alltaf hafa sagt þetta en ekki við hliðina á, og rúmlega fimmtugur karlmaður sagðist einnig alltaf hafa sagt þetta. Við skoðun í Risamálheildinni fann ég hátt í 90 dæmi um fyrir hliðina á og fyrir hliðiná, flest af samfélagsmiðlum en þó fáein af vefmiðlum. Þegar að er gáð ættu þessi sambönd ekki að koma á óvart. Við notum forsetninguna fyrir í flestum orðasamböndum sem tákna staðsetningu – segjum fyrir aftan, fyrir framan, fyrir ofan, fyrir neðan, fyrir utan, fyrir innan, fyrir norðan, fyrir sunnan, fyrir austan, fyrir vestan – því ekki fyrir bakvið og fyrir hliðina á?
Í huga barna sem eru að læra málið hlýtur það að vera mjög rökrétt. Vissulega eru bak og hlið upphaflega nafnorð en ekki atviksorð eins og -an-orðin en hafa fyrir löngu misst nafnorðseðli sitt og runnið saman við meðfylgjandi forsetningu, orðið bakvið og hliðiná í huga fólks – og oft í riti. Í athugasemd við pistil minn um fyrir bakvið var skrifað: „Þetta sagði ég alltaf þegar ég var lítil […] fyrir mér var þetta rökrétt því það var jú „framan“ og „bakvið“ og svo var maður að leika sér annaðhvort „fyrir framan húsið“ eða „fyrir bakvið húsið“.“ Trúlegt er að mörg börn fari í gegnum þetta skeið – segi fyrir bakvið og fyrir hliðiná um tíma en átti sig svo á því að það er ekki í samræmi við mál fullorðinna og breyti þessu. Þannig er eðlileg máltaka.
En eins og með önnur frávik barna frá máli fullorðinna má alltaf búast við að hjá einhverjum haldist þetta í málinu fram á fullorðinsár – þau haldi áfram að segja fyrir bakvið og fyrir hliðiná. Þannig verða málbreytingar. Það er eðlileg þróun málsins. Það þýðir hins vegar ekki að eðlilegt sé að viðurkenna fyrir bakvið og fyrir hliðiná sem „rétt mál“. Þetta virðist ekki vera útbreitt í máli fullorðinna – tæp 90 dæmi um fyrir hliðiná og á annað hundrað um fyrir bakvið er ekki mikið í Risamálheildinni sem hefur að geyma hátt á þriðja milljarð orða. Þetta uppfyllir varla þau skilyrði sem þarf til að teljast málvenja og getur þar af leiðandi ekki talist rétt mál – enn. En fari þeim fjölgandi sem hafa þetta í máli sínu á fullorðinsárum kemur væntanlega að því.