Fyrir bakvið hús
Fyrir tveimur og hálfu ári skrifaði ég hér pistil um samsettu forsetninguna fyrir bakvið (eða fyrir bak við) sem ég hafði þá nýlega fengið spurnir af en vissi lítið um og hafði ekki mörg dæmi um. En þegar ný útgáfa Risamálheildarinnar kom með efni af samfélagsmiðlum bættist við fjöldi dæma og nú er hægt að skoða þessa forsetningu nánar. Hún virðist vera einhvers konar samsteypa úr (á) bak við og fyrir aftan og oft er hægt að segja hvort sambandið sem er í staðinn, t.d. í dæmi af Huga.is 2004: „Án þess að hann sýni minnstu viðbrögð flýgur ör í trévegginn fyrir bakvið hann.“ Þarna væri bæði hægt að segja trévegginn (á) bak við hann og trévegginn fyrir aftan hann í sömu merkingu. En ekki er alltaf hægt að skipta á (á) bak við og fyrir aftan.
Mér sýnist að í stað fyrir bakvið sé ævinlega hægt að setja bak við, en ekki nærri alltaf fyrir aftan. Það eru m.a. dæmi um fyrir bak við tjöldin, fyrir bak við eyrað, fyrir bak við tölvuna, fyrir bakvið luktar dyr o.fl. þar sem ekki gengur að segja fyrir aftan. Sama gildir um yfirfærða merkingu eins og fara fyrir bakvið foreldra sína, önnur meining fyrir bakvið þetta, maðurinn fyrir bakvið sigurinn o.fl. – þar gengur fyrir aftan ekki heldur. Ég hef hins vegar ekki fundið nein dæmi um að fyrir bakvið sé notað í stöðu þar sem aðeins er hægt að nota fyrir aftan en ekki bak við, í dæmum eins og næst fyrir aftan mig eða eitthvað slíkt. Merkingarlega séð er fyrir bak við því afbrigði af (á) bak við þótt formið hafi orðið fyrir áhrifum frá fyrir aftan.
Sambandið fyrir bak við er a.m.k. 20 ára gamalt. Elsta dæmi sem ég finn um það er á Huga.is 2002: „vinur minn sá hvað allt gerðist, þetta gerðist fyrir bakvið hann.“ Á Bland.is 2004 segir: „Ég held að það búi nú eitthvað meira að baki – þær eru allavega ekki sjálfar fyrir bakvið linsuna.“ Frá árinu 2005 eru allmörg dæmi af samfélagsmiðlum þar sem fólk er að gera athugasemdir við þetta samband – „Haha, minn segir alltaf fyrir bakvið þig“ og „Ég er búin að vera að pæla í því að dætur mínar tala báðar um fyrir bakvið!“ segir t.d. á Bland.is þetta ár. Svipuðum athugasemdum fór fækkandi eftir þetta en bregður fyrir enn – „Ég er enn að vinna í að sætta mig við þegar kæró segir „fyrir bakvið“ segir t.d. á Twitter 2020.
Ég hef aðeins fundið tvö dæmi um sambandið í prentmiðlum, það eldra úr Fjarðarpóstinum 2013: „því undir niðri eru að gerast magnaðir hlutir sem fæstir skilja nema þeir sem hafa fengið að sjá hvað er fyrir bakvið grímuna.“ Annað dæmi er í Fréttablaðinu 2020: „Fallegur garður er fyrir bakvið hús.“ Fimm dæmi finnast á vefmiðlum, það elsta í Vísi 2014: „Hér beint fyrir bakvið mig er handboltaleikur í gangi.“ Í DV 2019 segir: „Ole Gunnar Solskjær er tekinn við liðinu og vill hann hrista vel upp í mannskapnum og einnig fyrir bakvið tjöldin.“ Langflest dæmin í Risamálheildinni eru af samfélagsmiðlum, alls rúm 120, þannig að ljóst er að það tíðkast nokkuð í óformlegu málsniði og gæti vitanlega farið að sjást meira í formlegu máli.
Sambandið fyrir bak við er tæpast orðið svo útbreitt enn að ástæða sé til að telja það rétt mál. Þó má hafa í huga að sambandið (á) bak við kemur ekki fyrir í fornu máli, heldur var þar notaður forsetningarliðurinn á bak með þágufalli – „Þorkell ríður nú á brott og snýr svo leið sinni að hann kemur á bak þeim Berki“ segir í Gísla sögu Súrssonar. „Í orðasambandinu á bak við e-ð hefur stofnorðið bak misst eigin merkingu og fengið það sem kalla má hlutverksmerkingu. Þetta má m.a. sjá af því að fs. á er oft felld brott og þá stendur einungis bak við e-ð eftir“ segir Jón G. Friðjónsson. Forsetningin á hefur því enga merkingu þarna – er þá ekki eins hægt að nota fyrir, eins og í fyrir aftan? Ég er ekki að mæla með því, en sé ekki að það væru mikil málspjöll.