Næs
Eitt algengasta tökuorð frá síðari tímum er lýsingarorðin næs sem er tekið óbreytt (að öðru en rithætti) úr nice í ensku. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'notalegur, hlýlegur' en sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Í Íslenskri orðabók frá 2002 er það skýrt 'snotur, fallegur, smekklegur' og '(um fólk) þægilegur, notalegur, geðfelldur' og merkt ?? sem þýðir „framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta“. Viðhorfið hefur greinilega mildast því að í eldri útgáfu bókarinnar er það merkt ? sem táknar „vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku“. Í Orðabók um slangur slettur bannorð og annað utangarðsmál frá 1982 er orðið skýrt 'fallegur, sætur, smart; alúðlegur, viðkunnanlegur, huggulegur'.
Elsta dæmi sem ég hef fundið um orðið næs á prenti er í greininni „Hinn dýrmæti arfur Íslendinga“ eftir Pál Þorsteinsson alþingismann á Hnappavöllum í Ingólfi 1942. Þar segir: „Margar hinar fullkomnari búðir hér á landi eru „agalega huggulegar“ meira að segja „flot“. Þar gefur að líta margskonar „græjur“. Þar eru föt, sum eru reglulega „pen“, hlutir, sem eru „smart“, ennfremur aðrir, sem eru „næs“ (nice) eða „patent“.“ Í Speglinum 1943 segir: „En hvað það er næs titill á bók.“ Í Alþýðublaðinu 1944 segir: „Svo settist ég á rúmið og sagði Köju, hvað mér fyndist Snæfellsjökullinn fallegur. ,,Ó, hann er næs!“ sagði Kaja og brosti við.“ Alls eru um 20 dæmi um myndina næs á tímarit.is fyrir 1960, aldrei innan gæsalappa nema það fyrsta.
Þótt orðið sé venjulega skrifað eftir framburði eru einnig dæmi um að það haldi upphaflegri stafsetningu, en þá er það oftast haft innan gæsalappa. Í Morgunblaðinu 1953 segir: „Og það átti að vera svo ,,nice“ að koma heim til Gvendar!“ Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Því að þessi ómennski satan í mynd manns, hefur í rauninni aldrei átt annað áhugamál en að rekast ekki á, semja sig að aðstæðunum, vera ,nice‘ við alla og alstaðar.“ Enski rithátturinn er einnig algengur á seinni árum þótt næs sé mun algengara. Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Þetta er mjög „nice“ lið, valinn maður í hverju rúmi.“ Í DV 2010 segir: „Jón Ásgeir gerði þetta bara af því hann var „nice“.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „allt stóðst og þau voru mjög „nice“ við mig alla tíð“.
Lengi vel áttu talmálsorð ekki greiða leið á prent og þess vegna er ekki við því að búast að mörg dæmi finnist um orðið fyrr en á síðustu áratugum, hvort sem væri í myndinni næs eða nice. Það er ekki fyrr en um 1980 sem fer að slakna á formlegheitum fjölmiðla og þá fer næs að sjást æ oftar á prenti. Í grein eftir Vanessu Isenmann í Orði og tungu 2014 er næs tekið sem dæmi um tökuorð sem hafi verið lagað að íslenskri stafsetningu. Í Risamálheildinni eru rúmlega 31 þúsund dæmi um næs – þar af eru vissulega rúm 30 þúsund af samfélagsmiðlum en þó á annað þúsund úr formlegri textum. Enska ritmyndin nice er þó enn talsvert notuð á samfélagsmiðlum – þar eru rúm 12 þúsund dæmi um hana, sum vissulega úr ensku samhengi eða textum á ensku.
Orðið næs virðist smátt og smátt færast nær því að öðlast viðurkenningu sem íslenskt orð, enda fellur það fullkomlega að íslensku hljóðkerfi – það má t.d. bera það saman við lýsingarorðið læs. Það sem helst hamlar því að næs fái fulla viðurkenningu er væntanlega beygingarleysið. Í sjálfu sér ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það beygðist í kynjum, tölum og föllum, rétt eins og læs – þá mætti tala um næsan mann, næsa konu og næst kvár, rétt eins og læsan mann, læsa konu og læst kvár. Eins ætti að vera auðvelt að stigbreyta orðið og segja t.d. það er næsara veður en í gær og þetta er næsasta fólk sem ég þekki. En þetta er eiginlega aldrei gert þótt örfá dæmi um beygðar myndir orðsins megi finna á samfélagsmiðlum, sum hver e.t.v. grín.
Þetta er þó ekki einsdæmi – sama máli gegnir um nokkur önnur ensk lýsingarorð sem hafa verið tekin inn í íslensku, eins og kúl (sem beygist þó stöku sinnum), töff, kósí og fleiri. Vissulega eru til rammíslensk lýsingarorð sem beygjast ekki – orð sem enda á -a eins og andvaka, fullburða, samferða o.fl. og -i eins og hugsi og þurfi – en þar má segja að hljóðafarið hindri beygingu sem ekki ætti að vera hjá tökuorðunum. En næs er lipurt og gagnlegt orð sem hefur fjölbreytta merkingu og ekki óeðlilegt að það sé mikið notað – sumum finnst það óþarflega mikið notað á kostnað ýmissa annarra orða sem einnig kæmu til greina og það má vera rétt. En það er borin von að næs verði útrýmt úr málinu og eins gott að viðurkenna það sem góða og gilda íslensku.