Hrekja leiðréttingar einhverf börn frá íslensku?

Því er oft haldið fram að íslensk börn og unglingar á einhverfurófi séu sérlega góð í ensku og kjósi jafnvel frekar að tala ensku en íslensku. Á vef geðfræðslufélagsins Hugrúnar segir t.d.: „Einnig eru margir einhverfir á Íslandi sem kjósa að tala ensku og hugsa á ensku.“ Það mætti e.t.v. ætla að þetta stafaði af því að fólk á einhverfurófi væri betra í ensku en íslensku en svo virðist ekki endilega vera. Í meistaraprófsritgerð Maríu Rósar Arngrímsdóttur í talmeinafræði frá 2021 segir: „Niðurstöðurnar benda til að færni barnanna í ensku og íslensku haldist nokkuð í hendur og það er ekkert sem bendir til að börn sem greind eru með einhverfu hafi almennt meiri og betri færni í ensku en íslensku.“ En hvers vegna leita þau þá yfir í enskuna?

Kannski er svarið að finna í eftirfarandi athugasemd sem kona skrifaði hér í gær: „Ég átti spjall við góða vinkonu mína á dögunum sem er ung, á einhverfurófi og þjökuð af endalausum íslensku leiðréttingum, jafnvel blá ókunnugs fólks. Hún kýs að tala ensku, sem hún þarf aldrei að þola leiðréttingar á. Hún er ekki ein um þetta, margir vina hennar gera það sama.“ Þetta rímar við könnun sem Karen Kristín Ralston gerði í BA-ritgerð frá 2016. Þar kemur fram að foreldrar barna á einhverfurófi nefndu m.a. eftirfarandi hugsanlega skýringar á því að börn þeirra gerðust fráhverf íslensku: Þau væru oft leiðrétt þegar þau töluðu íslensku; þeim fyndist þau vera undirmálsfólk þegar þau töluðu íslensku; þau ættu erfitt með að tjá tilfinningar á íslensku.

Í áðurnefndri meistaraprófsrannsókn Maríu Rósar Arngrímsdóttur kom fram að „hlutfall málfræðivillna var hærra á íslensku en ensku en gæti það hreinlega verið vegna þess að íslenska er mikið beygingarmál sem enska er ekki“. Það er vitað að fullkomnunarárátta er einn fylgifiskur einhverfu. Þess vegna er ekki ólíklegt að málfræðileiðréttingar fari illa í fólk á einhverfurófi og slíkar leiðréttingar eru eðli málsins samkvæmt miklu fremur gerðar við notkun fólksins á íslensku en ensku. Einnig er vitað að fólk á einhverfurófi er oft viðkvæmt fyrir hvers kyns áreiti frá umhverfinu og tekur það sem sagt er mjög bókstaflega. Hvort tveggja gæti stuðlað að því að því finnist hvers kyns málfarsleiðréttingar óþægilegar og forðist íslensku.

Ég hef svo sem nefnt áður að hugsanlega stuðli leiðréttingar, umvandanir og reglufesta að því að börn og unglingar eigi erfitt með eða veigri sér við að tala um tilfinningar sínar á íslensku og hrekist þess í stað yfir í ensku. Það er auðvitað vont, en sérlega slæmt ef það bitnar verst á fólki í viðkvæmri stöðu eins og fólki á einhverfurófi. En ég tek fram að ég hef aldrei unnið með einhverfu fólki og hef litla persónulega reynslu af einhverfu og þess vegna veit ég ekki hvort þarna er komin meginskýringin á mikilli enskunotkun barna og unglinga á einhverfurófi. Mér fannst þetta samt umhugsunarvert og ástæða til að skoða það betur. Það má ekki vera þannig að við hrekjum fólk á þennan hátt í faðm enskunnar – nóg er nú aðdráttarafl hennar samt.