Ég er góður

Í fyrradag var hér spurt: „Hvað þýðir ,,að vera góður?“ Æ oftar heyrist, þegar manni [er] t.d. boðið kaffi, sem er afþakkað, að er sagt er ,,nei takk, ég er góður“.“ Í umræðum kom fram að fyrirspyrjandi vissi reyndar mætavel hvað átt er við en vildi koma því á framfæri að honum þætti þetta „út í hött og hrein rökleysa“. Í umræðum var einnig bent á að „ég er góður“ væri algengt svar við spurningunni „hvernig ertu?“, og raunar getur þetta verið svar við ýmiss konar orðuðum og óorðuðum spurningum um líðan, ástand, óskir eða þarfir viðmælanda – hvað er að frétta? hvernig líður þér?er allt í lagi? ­hvað segirðu? viltu meira?vantar þig eitthvað? o.s.frv. Þetta merkir sem sé 'ég er í góðu standi og þarfnast einskis' eða eitthvað í þá átt.

Þetta tilsvar fer að sjást á samfélagsmiðlum upp úr aldamótum en elsta dæmi sem ég hef fundið á prenti er í DV 2004 þar sem maður sem hafði lent í fjárhagslegum hremmingum segir: „Ég er góður í bili.“ Í Mosfellingi 2006 segir: „Hvað er að frétta?“ – „Bara allt mjög gott … En af þér?“ – „Ég er góður.“ Í Feyki 2007 segir: „Hvernig hefurðu það?“ – „Ég er góður takk.“ Í 24 stundum 2008 lætur viðmælandi vel af sér og segir „Ég er góður svona almennt.“ Í DV 2010 er kona spurð hvort hún sé með blöðrur á höndunum og svarar: „Ég var svo rosalega sniðug að vera með hanska. Þannig að ég er góð.“ Í Fréttablaðinu 2013 er nefnt að „Hvernig líður þér“ sé mjög algeng spurning og bætt við: „Algengt svar er „bara vel“ eða „ég er góð/ur“.

Sambandið hefur verið rætt – og gagnrýnt – í málfarsþáttum. Í Morgunblaðinu 2010 gerði Guðrún Egilson athugasemd við það og sagði: „„Nei, ég er góð,“ sagði unga stúlkan ákveðin þegar ég bauð henni kökusneið. Þetta þótti mér skrýtin yfirlýsing.“ Þórður Helgason amaðist einnig við því í Morgunblaðinu 2013: „Þetta er eins og margt annað nýmælið í málinu runnið úr ensku (I am good) og er orðið mál ákaflega margra hér á landi.“ Jón G. Friðjónsson sagði í pistli frá 2017 í Málfarsbankanum: „Hér er vitaskuld hvert orð íslenskt en merkingin eða vísunin er framandleg. […] [Í] íslensku er engin hefð fyrir merkingunni ‘vilja ekki meira af e-u, vera saddur; líða vel ...’. Mig grunar að þessa málnotkun megi rekja til ensku: I’m fine/good.“

Þessar athugasemdir virðast ekki hafa haft mikil áhrif (frekar en athugasemdir við málfar yfirleitt) – sambandið ég er góð/góður fór einmitt að verða algengt í fjölmiðlum eftir þetta, og á samfélagsmiðlum er það mjög algengt. En hvað er um það að segja – hvað merkir að sambandið sé „hrein rökleysa“? Kannski finnst sumum óljóst hvað lýsingarorðið góður merkir þarna, en þá er rétt að hafa í huga að það er eitt fjölhæfasta lýsingarorð málsins – í Íslenskri orðabók er merkingu þess lýst í sjö liðum, og í áttunda liðnum auk þess talinn fjöldi orðasambanda sem það kemur fyrir í. Það má því segja að orðið muni ekki um að bæta við sig einni merkingu. En í þessu tilviki er samt ástæðulaust að gera ráð fyrir viðbótarmerkingu.

Það skiptir nefnilega meginmáli hér að ég er góð/góður er fast orðasamband, og í slíkum samböndum hafa einstök orð ekki endilega grunnmerkingu sína, heldur hefur sambandið merkingu sem heild. Um þetta má taka tvö augljós dæmi sem innihalda sama lýsingarorð. Hvað merkir góður t.d. í ég er góður með mig? Og til hvers vísar það í ég hef það gott? Þessi sambönd þykja góð og gild og við vitum hvað þau merkja en getum ekki endilega skilgreint merkingu einstakra orða í þeim. Eins er með ég er góð/góður. Vissulega stafar notkun þess af enskum áhrifum en orðin eru íslensk og sambandið hefur greinilega unnið sér hefð. Þau sem pirra sig á þessu orðasambandi geta auðvitað gert það, en við hin notum það bara áfram.