Að falast eftir

Sambandið falast eftir er vel þekkt í málinu og hefur verið notað a.m.k. frá því seint á 19. öld – elstu dæmi sem ég hef fundið um það eru frá 1886. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'biðja um' með notkunardæminu hann falaðist eftir fjárhagsaðstoð hjá bænum. Í Íslenskri orðabók er vísað úr falast eftir e-u í fala e-ð, sem er skýrt 'biðja um e-ð (sér til handa)', og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skýringin 'spörge om n-t kan faas'. Þessar skýringar eru í sjálfu sér réttar en ófullnægjandi, því að í þeim virðist alltaf gert ráð fyrir því að það sem falast er eftir sé eitthvað áþreifanlegt eða einhver efnisleg gæði. En svo er ekki alltaf, heldur er sambandið oft notað þegar verið er að biðja um einhverjar aðgerðir eða athafnir.

Elsta dæmi sem ég finn um slíka notkun er í Þjóðólfi 1910: „Segir í sömu grein, að H. Þ. hafi falast eftir því, að B.J. „notaði fægitól hegningarlaganna til þess að „garfa“ goðum líkt hörund velnefnds þjóðmennis [...].“. Í Ísafold 1916 segir: „ekki hefði hann reynst nothæfur þar; hefði helzt falast eftir því að mega bera inn skjöl til þingmanna, meðan fundur stóð yfir.“ Í Tímanum 1929 segir: „í fundarlok lýsti Jón því yfir að á Framsókn og „Sjálfstæðismönnum“ væri enginn munur og falaðist eftir því að þessir flokkar sameinuðust gegn Jafnaðarmönnum.“ Í Vísi 1933 segir: „Hann er þar að falast eftir því, að komast í stjórn með framsóknarmönnum.“ Þessi notkun sambandsins er vitaskuld enn mjög algeng, eins og sú sem orðabækurnar lýsa.

Nýlega rakst ég þó á sambandið falast eftir notað í merkingunni 'grennslast fyrir um'. Ég fór að skoða þetta nánar og fann slæðing af dæmum, það elsta í Degi 1992: „Hann átti kærustu fram í sveit og þar sem ég átti bíl var hann að falast eftir því hvort ég gæti orðið honum að liði við að sækja hana.“ Annað dæmi er í Morgunblaðinu 2000: „Leiðsögumaður hópsins á rútunni falaðist eftir því hvort unnt væri fyrir okkur að flytja hópinn með okkur upp í Kverkfjöll.“ Í DV 2001 segir: „Í tilfelli Bjarka hef ég samband við hann sjálfan […] og falast eftir því hvort hann gefi kost á sér í landsliðið.“ Í Víkurfréttum 2017 segir: „„Ég falaðist eftir því hvort það væru einhver verkefni þessu tengd, og þá helst jarðvarmanum.“ Örfá fleiri dæmi má finna á netinu.

Það er í sjálfu sér skiljanlegt hvernig þessi notkun sambandsins kemur til. Í venjulegri notkun þess er í raun og veru oft spurnarmerking – ef sagt er hann falaðist eftir því að ég yrði honum að liði má skilja það sem 'hann spurði hvort ég gæti orðið honum að liði' og þá er stutt yfir í að setningin taki á sig form óbeinnar spurningar og verði hann falaðist eftir því hvort ég gæti orðið honum að liði. En þótt þessi breyting á notkun sambandsins sé skiljanleg er ekki þar með sagt að hún sé æskileg. Dæmin um hana virðast enn sem komið er vera mjög fá og ekkert sem bendir til þess að hún sé orðin málvenja einhverra hópa. Þess vegna hvet ég til að við virðum málhefðina og höldum áfram að nota falast eftir eingöngu í merkingunni 'biðja um'.