Andvaraleysi og ábyrgðarleysi stjórnvalda

Þegar drög að aðgerðaáætlun um eflingu íslenskunnar voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í vor sendi ég ítarlegar athugasemdir við þau sem ég birti einnig hér. Þar fagnaði ég áherslu á kennslu íslensku sem annars máls en benti á ýmislegt sem mér fannst vanta í áætlunina. Meginathugasemdir mínar vörðuðu þó fjármögnun hennar. Ég benti á að kostnaðaráætlun vantaði og lagði áherslu á mikilvægi þess að kostnaðarmat einstakra aðgerða fylgdi þegar aðgerðaáætlunin yrði lögð fram sem þingsályktunartillaga sem á að gera nú í október. Ég hef líka bent á að ekkert í fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem lögð var fram í vor bendir til þess að til standi að auka fjárveitingar til íslenskukennslu svo að nokkru nemi á næstunni.

Nú hef ég verið að skoða fjárlagafrumvarp ársins 2024 og leita að vísbendingum um að til standi að bæta verulega í hvað varðar kennslu íslensku sem annars máls. Framsetning frumvarpsins er reyndar ekki með þeim hætti að auðvelt sé að átta sig á þessu, en ég hef ekki fundið mikið. Undir lið 22.20, „Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig“, segir: „Fjárheimild málaflokksins lækkar um 115 m.kr. vegna tímabundinnar fjárheimildar sem kom inn í fjárlögum 2023 vegna eflingar íslenskukennslu fyrir innflytjendur en fellur nú niður.“ Undir lið 30.1, „Vinnumál og atvinnuleysi“, segir: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið til tveggja ára um 120 m.kr. vegna íslenskunámskeiða fyrir flóttafólk.“

Þarna er sem sé verið að lækka framlög til íslenskukennslu um 115 milljónir í einum lið en hækka þau um 120 milljónir í öðrum – nettóaukning er fimm milljónir sem er auðvitað aðeins dropi í hafið. Reyndar er ekki verið að tala um sama hópinn og þótt það sé góðra gjalda vert að auka íslenskukennslu flóttafólks er fráleitt að skerða fé til íslenskukennslu innflytjenda á móti. En auk þess segir undir lið 18.30, „Menningarsjóðir“: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið til eins árs um 75 m.kr. vegna aðgerðaáætlunar í málefnum íslenskrar tungu.“ Það er auðvitað ánægjuefni svo langt sem það nær. En aðgerðaáætlunin er metnaðarfull og í mörgum liðum og ljóst að 75 milljónir hrökkva skammt til að hrinda henni í framkvæmd.

Nú er hugsanlegt – og vonandi – að mér hafi sést yfir háar upphæðir til íslenskukennslu í frumvarpinu, og eins er vitanlega mögulegt að fjárveitingar til íslenskukennslu verði stórauknar í meðförum Alþingis. Ég leyfi mér samt ekki að vera bjartsýnn á það. Því miður sýnist mér fátt benda til þess að stjórnvöld geri sér grein fyrir mikilvægi málsins eða átti sig á alvarlegri stöðu íslensks málsamfélags. Það stefnir í að íslenska verði ekki aðalsamskiptamálið í landinu um miðja öldina, það stefnir í að til verði samfélög fólks sem kann ekki íslensku og á þess ekki kost að taka fullan þátt í samfélaginu – fólks á lágum launum með litla menntun. Þetta er stórhættulegt fyrir íslenskuna og fyrir lýðræðið í landinu – en við erum ekkert að gera í því.