Milliskyrtur, nærskyrtur – og farsímar

Nýjum orðum í málinu, ekki síst tökuorðum, er oft fundið það helst til foráttu að þau útrými eldri orðum sömu merkingar og stuðli þannig að málfátækt. Eins og ég hef áður skrifað um veit ég ekki hvað oft ég hef séð því haldið fram að orðið snjóstormur sé að útrýma gamalgrónum orðum eins og bylur, stórhríð, kafald o.fl. Einföld athugun leiðir í ljós að því fer fjarri að svo sé, og oftast eru slíkar áhyggjur reyndar byggðar á misskilningi sem er svo sem eðlilegur – við tökum miklu frekar eftir því sem er nýtt og framandi en því sem við erum vön, og ýkjum því ómeðvitað tíðni nýrra orða. Samt sem áður gerist það auðvitað oft að orð hverfa úr málinu og fyrir því geta verið ýmsar ástæður – ekki endilega þær að önnur orð ýti þeim í burtu.

Fyrir nokkrum árum var ég að horfa á sjónvarpsviðtal við aldraðan kaupmann og kipptist við þegar hann nefndi orðið milliskyrta. Þetta var orð sem ég mundi vel eftir úr mínu ungdæmi en hafði ekki heyrt lengi. Athugun á tímarit.is staðfesti þá tilfinningu mína að orðið væri að hverfa úr málinu – þar eru 1215 dæmi um orðið en þar af aðeins ellefu frá þessari öld, sum þeirra úr eldri textum. Í Risamálheildinni eru aðeins fimm dæmi frá þessari öld um orðið og það er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er hins vegar í Íslenskri orðabók og skýrt 'skyrta til að hafa milli nærskyrtu og ytri flíkur'. Orðið nærskyrta er þar skýrt 'skyrta til að vera í næst sér' en það orð er reyndar einnig á mikilli niðurleið – rúm 30 dæmi frá þessari öld á tímarit.is.

Öfugt við milliskyrta er nærskyrta þó í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt 'nærbolur' – sem er einmitt orðið sem hefur komið í staðinn. En milliskyrta er það sem nú heitir bara skyrta. Þegar talað var um tvenns konar skyrtur þurfti að greina þar á milli – önnur tegundin var nærskyrtur, hin milliskyrtur. En þegar nærbolur kemur í staðinn fyrir nærskyrtu er ekki lengur þörf á að greina milli tveggja tegunda af skyrtum og því hægt að stytta milliskyrta í skyrta. Við það bætist að sennilega ganga karlmenn frekar í skyrtum næst sér en áður, án þess að vera í nærbol. Hvort tveggja dregur úr þörf fyrir aðgreiningu milli mismunandi tegunda af skyrtum og ég held að þetta sé meginskýringin á því að við tölum ekki lengur um milliskyrtur.

Þetta er dæmi um orð sem hefur horfið úr málinu vegna þess að ekki var þörf fyrir það lengur – ekki vegna þess að fyrirbærið sem það vísar til sé úrelt eða horfið, heldur vegna þess að ekki er lengur þörf á tiltekinni aðgreiningu. Þetta er alltaf að gerast. Annað og nýlegra dæmi er orðið farsími. Það orð er tiltölulega nýlegt, sást fyrst á prenti fyrir tæpum 40 árum og varð fljótlega mjög algengt, sérstaklega eftir 1990. En á síðustu árum hefur dregið verulega úr notkun orðsins – ekki vegna þess að farsímum fari fækkandi, heldur þvert á móti. Nú er farsími hinn sjálfgefni sími og grunnorðið fær því þá merkingu. Svona er orðaforðinn í sífelldri endurnýjun – ný orð koma inn og önnur hverfa. Það er eðlilegt, þótt vissulega geti verið eftirsjá að góðum orðum.