Gleraugnahús

Einu sinni var ég að skrifa um það að þrátt fyrir að merking samsettra orða sé oft gagnsæ, í þeim skilningi að við getum tengt einstaka liði þeirra við önnur orð sem við þekkjum, þá geta tengsl liðanna verið með ýmsu móti og oft þarf að læra sérstaklega hvernig þeim sé háttað í hverju orði. Ég tók dæmi af orðinu hús sem „birtist t.d. í fjölmörgum ólíkum samsetningum. Þannig vísar timburhús til efnis hússins, einingahús fremur til byggingaraðferðar, íbúðarhús til nýtingar, fjölbýlishús til skipulags, eldhús og þvottahús eru ekki einu sinni hús, heldur herbergi – að ekki sé talað um gleraugnahús og nálahús“. Guðrún Kvaran segir um tvö þau síðastnefndu: „Fleiri merkingar eru auðvitað í hús eins og til dæmis 'hulstur, hylki' […].“

Elsta dæmi um gleraugnahús í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr bréfi frá séra Árna Helgasyni árið 1826: „til gullsmiðsins eru komin gleraugnahús conferensr. í þeim tilgangi.“ Elsta dæmi á tímarit.is er í Norðanfara 1876: „Þeir höfðu ýmsa gripi, helzt krossa og róðukrossa, neftóbak og tóbaksdósir og gleraugnahús.“ Í Ísafold 1891 eru auglýst „Gleraugnahús sjerstök“. Í Ísafold 1892 segir: „Tapazt hefir í gær á götum bæjarins silfurgleraugnahús vandað.“ Þar er orðið haft í eintölu en fleirtalan virðist þó vera mun algengari og í flestum orðabókum er orðið gefið upp sem fleirtöluorð. Þannig er ég líka vanur því. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er eintalan þó gefin upp, sem og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

En nýlega áttaði ég mig á því að þetta orð, sem ég hef þekkt frá barnsaldri og nota iðulega enn í dag, virðist vera nær horfið úr málinu. Ég komst svo að því að ég er ekki einn um að hafa veitt þessu eftirtekt. Þórður Helgason sagði í Morgunblaðinu 2013: „Hins vegar gerist það stundum að ágætum heitum hluta er gert að hverfa sakir þess að hluturinn breytir um form. Önnur orð setjast á þá í staðinn. Gott dæmi um slíkt er hið fallega orð gleraugnahús, orð sem ég ólst upp við og sakna. Gleraugnahús höfðu eins konar dyr sem hægt var að opna og loka. Skyndilega var slíkum húsum lokað hinsta sinni en við tóku lágkúrulegri orð eins og hulstur eða hylki sem engin reisn er yfir. Dagar gleraugnahúsa voru taldir.“

Orðið hefur svo sem aldrei verið mjög algengt á prenti. Á tímarit.is eru rúm 300 dæmi um það, hátt í helmingur úr nöfnum verslana. Í Risamálheildinni eru aðeins fimm dæmi um orðið frá þessari öld, þar af þrjú þar sem orðið er beinlínis til umfjöllunar (dæmin frá Guðrúnu Kvaran og Þórði Helgasyni sem nefnd eru hér að framan). Orðið gleraugnahulstur er svo sem ekki algengt heldur en þó eru 58 dæmi um það í Risamálheildinni og auk þess er mjög oft bara talað um hulstur. Stundum þykir greinilega ástæða til að skýra gleraugnahús með öðru orði í sviga: „Gleraugun eru í gleraugnahúsi (gleraugnahulstri) sem er klætt með brúnu gerviefni að utanverðu en fóðrað að innanverðu með vínrauðu flaueli“ segir í lýsingu í Sarpi.

Ein ástæða þess að orðið gleraugnahús hefur vikið fyrir öðrum orðum gæti verið breytt hönnun – eins og Þórður Helgason nefnir höfðu gleraugnahús áður „eins konar dyr sem hægt var að opna og loka“ en í seinni tíð er oft um að ræða hylki eða hulstur sem gleraugunum er smeygt í, eða sem er lokað með rennilás, og þá liggur líkingin við hús ekki eins beint við. Hugsanlega finnst málnotendum líka að gleraugnahús hljóti að vera bygging frekar en hulstur – á seinni hluta síðustu aldar voru til verslanirnar Gleraugnahúsið og Gleraugnahús Óskars og það kann að hafa stuðlað að tengslum orðsins við byggingar í huga málnotenda. En hver sem ástæðan kann að vera á ég ekki von á að gleraugnahús lifni aftur við.