Magaermisaðgerð

Í gærkvöldi heyrði ég orðið magaermisaðgerð notað í sjónvarpsfréttum. Mér fannst það athyglisvert – ég hefði búist við magaermaraðgerð vegna þess að kvenkynsorðið ermi fær -ar-endingu í eignarfalli eintölu, ermar. Þegar ég fór að skoða þetta kom þó í ljós að myndin magaermisaðgerð er töluvert notuð, meira en magaermaraðgerð að sjá – fyrrnefnda myndin er t.d. notuð í Læknablaðinu og í kynningarefni frá Klíníkinni. Í Risamálheildinni eru 79 dæmi um magaermisaðgerð en 68 um magaermaraðgerð – og auk þess 18 um magaermiaðgerð þar sem fyrri hlutinn er ber stofn og 10 um magaermaaðgerð þar sem fyrri liðurinn virðist vera í eignarfalli fleirtölu. Allar myndirnar sjást fyrst á prenti á árunum 2016-2017.

Í fljótu bragði mætti ætla að magaermisaðgerð væri rangt myndað orð, samræmdist ekki íslenskum orðmyndunarreglum, þar sem fyrri liður þess væri röng eignarfallsmynd – og vissulega er eignarfallið af ermi aldrei *ermis. Hins vegar er það vel þekkt að kvenkynsorð sem enda á -i bæti við sig -s þegar þau eru fyrri liður samsetninga – keppnismaður, landhelgisgæsla, leikfimishús o.s.frv. Fyrri liður þessara orða, keppni, landhelgi, leikfimi, er eins í öllum föllum eintölu – við fáum aldrei *keppnis, *landhelgis, *leikfimis í orðunum einum og sér. Þess vegna er fyrri liðurinn ekki í eignarfalli í þessum orðum og -s ekki eignarfallsending, heldur er stofninn notaður og milli hans og seinni hlutans kemur tengihljóð (tengistafur, bandstafur).

Slík orðmyndun er algeng í málinu og góð og gild, þótt áður hafi oft verið gerðar athugasemdir við hana vegna þess misskilnings að þar væri um ranga eignarfallsmynd að ræða. Ekkert er því til fyrirstöðu að líta svo á að magaermisaðgerð sé myndað á sama hátt – af stofninum magaermi að viðbættu tengihljóðinu -s. Vissulega er sá munur á orðinu ermi og hinum orðunum sem nefnd voru, keppni, landhelgi, leikfimi, að þau eru óbreytt í eignarfalli eintölu en ermi fær -ar-endingu. En í öllum þessum orðum er eðlilegast að líta svo á að -i sé ekki beygingarending (í nefnifalli, þolfalli og þágufalli), heldur hluti stofnsins en falli brott í eignarfallinu ermar vegna þess að endingin hefst á sérhljóði (ermi+ar > ermar) eins og ótal önnur dæmi eru um í málkerfinu.

En vitanlega eru bæði stofnsamsetningin magaermi+aðgerð og eignarfallssamsetningin magaerm+ar+aðgerð líka rétt mynduð orð, og þar eð þær samsetningaraðferðir eru miklu algengari en samsetning með tengihljóði hefði e.t.v. mátt búast við að þær yrðu frekar fyrir valinu en magaermi+s+aðgerð (samsetning með eignarfalli fleirtölu, magaerm+a+aðgerð, er líka orðmyndunarlega rétt en merkingarlega ólíklegri). Það er samt ljóst að málnotendum finnst vanta einhverja tengingu milli orðhlutanna ef ber stofninn er hafður í fyrri hluta orða af þessu tagi þannig að magaermiaðgerð er ólíklegri mynd enda mun sjaldgæfari. Aftur á móti er magaermaraðgerð eðlileg mynd, eins og magaermisaðgerð, og smekksatriði hvor er valin.