Posted on Færðu inn athugasemd

Hvernig lýst ykkur á þetta?

Ég hef yfirleitt forðast að skrifa hér um stafsetningu enda finnst mér það frekar ófrjótt viðfangsefni – stafsetningarreglur eru mannanna verk og frávik frá þeim segja lítið um almenna málkunnáttu. Frá því eru þó undantekningar, og eina slíka rakst ég á í morgun í föstudagsmasi Heimis Pálssonar sem skrifar: „Held ég hafi einhvern tíma nefnt að margir rita „hvernig lýst þér á þetta?“ en myndu aldrei skrifa sögnina „lýtast“ með ý. Þetta [er] áreiðanlega vegna þess að verið er að hugsa um ljós þegar manni lýst á, en alls ekki lýti þegar rætt er um sögnina lítast. Þetta er merkilegt og mér líst svo á að það væri verðugt samvinnuverkefni fyrir fagurkera og sálfræðing að kanna samband útlits og innblásturs í stafsetningu – svona ef vantar verkefni.“

Þetta minnti mig á pistil sem ég skrifaði nýlega: „Venjulega er litið svo á að munurinn á þakkir skildar og þakkir skyldar sé eingöngu stafsetningarmunur – í seinna dæminu sé y ranglega ritað fyrir i. En sama villa er nánast aldrei gerð í þakkir skylið – um það eru aðeins átta dæmi á tímarit.is, móti 1750 um þakkir skyldar. Það hlýtur því að vera eitthvað í myndinni skildar sem veldur því að málnotendum finnst eðlilegt að rita skyldar. Trúlegt er að þetta sé tengt við þakkarskuld í huga margra – við vitum að u og y skiptast oft á í skyldum orðum. Lýsingarorðið skyldur getur líka merkt 'skyldugur' þannig að hugsanlegt er að málnotendur skilji sambandið svo að skylt sé að þakka einhverjum. Slík merkingartengsl eru nærtækari en við skilinn.“

Annað svipað dæmi er orðið tilskilinn. Um þá mynd eru hátt í 3700 dæmi á tímarit.is en aðeins 12 um tilskylinn. Aftur á móti eru samtals rúm 1700 dæmi um myndirnar tilskyldir, tilskyldar og tilskyldum en um 9400 um samsvarandi myndir með i. Væntanlega tengja málnotendur þetta við orðin skylda og skyldur. Dæmi Heimis um lýst er örugglega svipaðs eðlis. Á tímarit.is eru rúm sjö þúsund dæmi um líst / lízt vel en hátt í þúsund um lýst / lýzt vel, og tæp átta þúsund um hvernig líst / lízt en tæp ellefu hundruð um hvernig lýst / lýzt. Athugið að þetta eru að verulegu leyti prófarkalesnir textar þannig að hlutfall dæma sem ekki samræmast reglum er mjög hátt. Aftur á móti eru rúm 500 dæmi um lítast vel en aðeins eitt um lýtast vel.

Þetta eru góð dæmi um það að „villur“ í stafsetningu eru ekki alltaf bara „villur“ í þeim skilningi að þær sýni vankunnáttu fólks í því sem það hefur átt að læra, heldur geta þær stundum sagt okkur eitthvað um málkerfi og máltilfinningu þeirra sem skrifa. Þau sem skrifa mér lýst vel á þetta, hún á þakkir skyldar og hann lauk verkinu á tilskyldum tíma eru sem sé einmitt að gera eins og fyrir þau er lagt í stafsetningarkennslu – þau eru (meðvitað eða ómeðvitað) að velta fyrir sér uppruna orðanna og tengslum þeirra við önnur orð. Það vill bara svo til að í þessum vangaveltum komast þau að „rangri“ niðurstöðu – miðað við reglurnar sem við höfum sett. En er ekki ástæða til að meta þetta við þau og vinna með það, frekar en gefa þeim bara villu?

Posted on Færðu inn athugasemd

Að meðferða

Í gær heyrði ég sögnina meðferða notaða í sjónvarpsfréttum. Þótt ég hafi aldrei heyrt hana áður skildi ég hana strax, bæði vegna tengsla við nafnorðið meðferð og út frá samhengi – það var talað um að „greina, sjúkdómsgreina og „meðferða““. Ég set meðferða hér innan gæsalappa því að sú sem notaði sögnina gerði tákn fyrir gæsalappir með höndunum sem sýnir að hún áttaði sig á því að þetta væri ekki vel þekkt eða viðurkennd málnotkun. En ég fann slæðing af dæmum um sögnina bæði á netinu og í Risamálheildinni, þau elstu frá 2005. Á Málefnin.com segir „En ég hef meðferðað svo marga“ og á Bland.is voru tvö dæmi, annað var „já ég hringdi upp á Vog áðan og sagði þeim frá ástandinu á heimilinu en þeir sögðust ekki meðferða svona fíkn!!!“

Þótt sögnin meðferða sé ekki algeng er ljóst að hún hefur verið til í málinu í a.m.k. hátt í 20 ár. Meðal dæma sem ég fann um hana á netinu eru „Hún starfaði áður […] við geðgreiningar og að meðferða kvíða og þunglyndi“, „Mögulegt að meðferða fólk með mismunandi raskanir á sama tíma“, og „á krabbameinsdeildinni er hugsað heildrænt þegar verið er að meðferða krabbameinssjúkling.“ Sögnin hefur sjaldan komist í fjölmiðla en fyrir utan dæmið í gær fann ég dæmi úr fréttum Stöðvar tvö 2013, „Í janúarmánuði fengið mikið af spurningum um það hvort að það dugi eitthvað að meðferða einstaklinga sem þessa“, og úr fréttum Ríkisútvarpsins 2015: „Við vitum meira en við vissum fyrir fimm árum um hvernig á að meðferða einstaklinga.“

Í þessum dæmum er ýmist talað um að meðferða sjúkdóm / fíkn eða meðferða fólk (við sjúkdómi / fíkn). Sögnin meðhöndla hefur hliðstæð merkingartilbrigði og í sumum tilvikum væri hægt að nota hana í stað meðferða – talað er um að meðhöndla kvíða og þunglyndi, meðhöndla krabbameinssjúkling o.s.frv. En merking sagnanna er ekki alveg sú sama, ekki frekar en í nafnorðunum meðferð og meðhöndlun. Í meðferða felst oft að verið er að veita ákveðna, vel skilgreinda, skipulagða, sérhæfða og tímabundna meðferð, en meðhöndla vísar fremur til almennrar meðhöndlunar með fjölbreyttum aðferðum, eins og felst í skýringu hennar í Íslenskri nútímamálsorðabók, 'veita heilbrigðisaðstoð og lækningu'. En vissulega skarast þetta oft.

Það eru vitanlega fordæmi fyrir því að sögn sé mynduð af samsettu nafnorði með því að bæta nafnháttarendingunni -a við nafnorðsstofninn – þekkt dæmi er sögnin hesthúsa sem auðvitað er mynduð af nafnorðinu hesthús. Þótt sögnin *ferða í germynd sé ekki til í málinu er miðmyndin ferðast vitanlega alþekkt. Orðfræðilega ætti meðferða því að vera í lagi en spurningin er hvort hennar sé þörf. Ef meðhöndla gengur ekki merkingarlega verða þau sem vilja ekki nota meðferða að nota orðasamband, veita meðferð, sem er dálítið formlegt. Þá má líka minna á að oft er því haldið fram að íslenska sé „sagnamál“ og betra sé að nota eina sögn en samband sagnar og nafnorðs. Ef þörf er fyrir meðferða sé ég ekkert að því að nota hana – hún venst.