Er íslenska „ónákvæmari“ en enska?
Hér spannst í morgun fróðleg umræða út frá frétt í Vísi þar sem enskt orð var haft í sviga á eftir íslensku orði eins og til skýringar. Ég held að það hafi færst í vöxt að undanförnu að setja ensk orð inn í íslenskan texta á þennan hátt. Nýleg dæmi af vefmiðlum: (1) „Svo myndi ég kannski segja að mín „signature“ flík á meðgöngunni séu magabolir eða stuttar (e. cropped) flíkur þar sem kúlan fær að vera ber og njóta sín.“ (2) „Flíkurnar eru sjónræn tjáning af athöfnum (e. rituals) sem eiga það sameiginlegt að stuðla að jarðbindingu og dýpka teningu við sjálfið.“ (3) „Reyndar er þetta endurbyggjandi aðgerð (e. reconstructive surgery), ekki fegrunaraðgerð að þessu sinni.“ (4) „Ég er mikið á splittbretti, brimbretti og róðrarbretti (e. paddleboard).“
Þessi dæmi eru af ýmsum toga. Í dæmi (4) er um að ræða heiti á fyrirbæri sem ekki er orðið vel þekkt á Íslandi, og íslenska orðið um það (sem er reyndar ýmist róðrabretti eða róðrarbretti) þá ekki heldur, og ekki komið í orðabækur. Þess vegna er það ekki óeðlileg þjónusta við lesendur að láta enska orðið fylgja – það er þá hægt að gúgla það. Annar möguleiki væri vitanlega að útskýra á íslensku um hvað er að ræða. Öðru máli gegnir um hin dæmin. Mér finnst engin ástæða til að hafa cropped í sviga í dæmi (1), og rituals í dæmi (2) er venja að þýða sem (helgi)siði á íslensku frekar en athafnir. Í dæmi (3) ætti endurbyggjandi aðgerð að vera nógu skýrt til að óþarft væri að láta reconstructive surgery fylgja, enda styður samhengið við skilning.
Mér finnst þetta sem sé eðlilegt meðan lesendur eru að venjast nýju orði eins og í dæmi (4) þótt vitanlega sé álitamál hversu langan tíma eigi að gefa þeim til þess. Í öðrum tilvikum getur þetta gefið til kynna að fréttaskrifarinn þekki ekki venjulega íslenska samsvörun orðsins sem verið er að þýða, eins og í dæmi (3), og það er vitanlega óheppilegt ef um vel þekkt orð er að ræða. En svo getur líka verið að fréttaskrifari þekki réttu orðin og noti þau, en hafi enskuna í sviga til að auðvelda lesendum að tengja það sem rætt er um við fyrirbæri sem líklegt er að þeir þekki – úr ensku. Þannig gæti þetta verið í (1) og (3) – cropped um flíkur gæti vakið hugrenningatengsl sem stuttar gerir ekki, og svipuðu máli gæti gegnt um reconstructive og endurbyggjandi.
Í fréttinni í Vísi sem umræðan spannst af er talað um „fyrstu Íslensku myndasöguna (e. picture story)“. Orðið myndasaga er auðvitað vel þekkt íslenskt orð og samsvarar picture story merkingarlega lið fyrir lið, en í umræðunni kom fram að enskan væri höfð með í sviga vegna þess að myndasaga væri ekki nógu nákvæmt orð – „Verkið samanstandi bæði af sögunni og myndunum, myndirnar séu aðalatriðið og ekki sé hægt að sundurgreina textann og myndirnar“ eins og segir í frétt Vísis. Vissulega er rétt að myndasaga er notað sem þýðing á fleiri enskum orðum, ekki síst cartoon og comic strip. En er það ekki í góðu lagi? Í þessu tilviki var lítil hætta á misskilningi, auk þess sem eðli sögunnar er skýrt í fréttinni til að taka af allan vafa.
Nú vil ég leggja áherslu á að þessi umræða snýst, af minni hálfu a.m.k., ekki um þessa tilteknu frétt Vísis enda þótt hún hafi orðið kveikjan að umræðunni. En ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta er sú að ég hef það á tilfinningunni (þótt ég geti ekkert fullyrt um það) að enskunotkun í dæmum af þessu tagi stafi stundum af því að mörgum finnist (örugglega oftast ómeðvitað) að íslenska sé á einhvern hátt „ófullkomnari“ eða „ónákvæmari“ en enska – að þegar íslenska skiptir merkingu á orð á svolítið annan hátt en enska þá sé það „galli“ á íslenskunni því að enska sé einhvers konar „frummál“ eins og málshefjandi í umræðunni í morgun sagði. Sé eitthvað til í þessu er það umhugsunarefni og sýnir þörf fyrir meiri umræðu um tungumálið og eðli þess.