Margir orðrómar

Í gær var hér nefnt í innleggi að fleirtalan orðrómar sæist nú oft en hefði áður verið leiðrétt. Það er rétt – í málfarshorni Morgunblaðsins sagði t.d. árið 2019: „Fleirtalan „orðrómar“ ber þess merki að hafa orðið til við enskulestur; enskan á rumo(u)rs […]. Orðrómur er í stórum dráttum óljós og óstaðfest fregn. Og það er eintöluorð.“ En á hverju byggist sú staðhæfing að orðrómur sé eintöluorð? Orðið kemur vissulega aðeins fyrir í eintölu í fornu máli og fram á 20. öld en elstu dæmi um fleirtölumyndir orðsins eru þó meira en hundrað ára gamlar og varla ensk áhrif. Elsta dæmi sem ég finn er í Morgunblaðinu 1913 þar sem segir: „Taldi hann mjög miður farið, hversu mikið væri hjalað um njósnarmálin, og hve rangir orðrómar bærust af þeim.“

Fleirtölumyndum orðsins bregður fyrir stöku sinnum alla 20. öldina þótt þær hafi ekki verið algengar til skamms tíma – alls eru hátt í 150 dæmi um þær á tímarit.is. En eftir aldamót verður fleirtalan skyndilega mjög algeng, og í Risamálheildinni eru hátt í 2700 dæmi um fleirtölumyndir orðsins. Fleirtölubeyging þess er gefin athugasemdalaust í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls sem er auðvitað lýsandi en ekki stýrandi. Það eru því engin beygingarleg rök fyrir því að segja að orðrómur sé eintöluorð – fleirtala orðsins er greinilega til þótt amast sé við henni. Ekki er heldur hægt að finna augljós merkingarleg rök gegn fleirtölunni – af hverju ætti orð sem merkir 'óljós og óstaðfest fregn' ekki að geta verið til í fleirtölu?

Ástæðan fyrir því að orðrómur var áður aðeins í eintölu en er nú iðulega í fleirtölu virðist vera sú að merking orðsins hefur hnikast til. Áður merkti það 'umtal, almannarómur' (Íslensk orðabók gefur líka merkinguna 'lof, hrós' sem sögð er forn og úrelt) – var sem sé fremur almennt og óafmarkað. Þess vegna var fleirtalan ekki notuð, eins og sjá má á skýringarorðunum umtal og almannarómur sem eru ekki heldur höfð í fleirtölu í nútímamáli. Í nútímamáli er vísun orðsins ekki jafn óljós – það vísar til mun skilgreindari og afmarkaðri fregnar en áður og þar með verður eðlilegt að nota það í fleirtölu. Það eru fjölmörg hliðstæð dæmi í málinu þar sem eintöluorð með óhlutstæða merkingu fara að vísa til einhvers afmarkaðs og fá þá fleirtölu.