Enskættuð orðasambönd í íslensku

Í gær sagðist hópverji hafa rekist nokkrum sinnum undanfarið á orðalag eins og ég sé engan harm í, og ekki bara hjá yngra fólki. Það er nokkuð ljóst að á bak við þetta liggur enska orðalagið I see no harm in og örfá dæmi má finna um þessa málnotkun í Risamálheildinni – og einnig dæmi sem virðast byggjast á enska orðasambandinu do no harm. Á Hugi.is 2003 segir: „ég sé engan harm í því sem bgates er að gera.“ Á Hugi.is 2008 segir: „Þeir eru bara að taka í burtu möguleika sem gerir þessum “casual” spilurum engan harm.“ Á Bland.is 2008 segir: „er ekki viss, ég borðaði sterkan mat þegar ég var ólétt og gerði engan harm.“ Í Feyki 2012 segir: „Knapinn skutlar sér á eftir hestinum og saman komast þeir í land og enginn harmur skeður.“

Örfá dæmi til viðbótar má finna á netinu, öll af samfélagsmiðlum eins og dæmin hér að framan nema dæmið úr Feyki. Það er því ekki að sjá að þetta orðalag sé komið mikið inn í málið, þótt vitanlega geti það verið miklu algengara í talmáli en ritmálsdæmin benda til. En auðvelt er að benda á dæmi um ýmis orðasambönd sem eiga sér augljóslega erlenda – nær alltaf enska – fyrirmynd og hafa breiðst út í málinu á allra síðustu árum, ekki bara í óformlegu málsniði. Gott dæmi um þetta er eins og enginn sé / væri morgundagurinn sem augljóslega er sniðið eftir as if there was / were no tomorrow. Þetta samband sást fyrst á prenti í árslok 2005 en varð fljótlega ótrúlega algengt – 570 dæmi eru um það á tímarit.is og rúm 2600 í Risamálheildinni.

Almennt séð finnst mér að orð og orðasambönd eigi ekki að gjalda uppruna síns og ég sé ekkert að því þótt orðalag sem augljóslega er ættað úr ensku sé tekið upp í íslensku – ef það fellur að málinu. Eins og ég hef áður skrifað um sé ég þess vegna enga ástæða til að amast við eins og enginn sé / væri morgundagurinn – það hvorki breytir né útrýmir einhverju sem fyrir er í málinu og vel má færa rök að því að það auðgi málið, þótt sjálfsagt mætti líka halda því fram að það sé ofnotað. Öðru máli gegnir um sjá engan harm í og gera engan harm – þar er orðið harmur augljóslega notað í ensku merkingunni, 'mein, skaði, tjón' en ekki í þeirri íslensku, 'mikil og þungbær sorg'. Þarna er merkingu orðsins breytt að óþörfu – forðumst þessi sambönd í íslensku.