Að keyra mig eða mér – að keyra bílinn eða bílnum

Í „Póstinum“ í Vikunni var spurt árið 1943 hvort réttara væri að segja „Hann keyrði hann í bílnum, eða: hann keyrði honum í bílnum“. Svarið var: „Ef orðið „keyra“ er notað, þá á að segja keyra hann. – Annars er orðið ,,keyra“ ekki góð íslenzka, og er betra að nota „aka“. Í þessu tilfelli: Hann ók honum í bifreiðinni.“ Vitanlega er keyra gömul og fullgild íslenska í merkingunni 'reka, knýja áfram' en þarna er átt við notkun orðsins í merkingunni 'aka' sem áður þótti hæpin – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er spurningarmerki við hana. Hún er þó gömul – í Iðunni 1884 segir: „einusinni keyrði vagn yfir mig af því jeg ætlaði að forða barni“ og í Morgunblaðinu 1915 segir: „Maðurinn sem keyrir bifreiðina er Jón Sigmundsson.“

Þessi notkun sagnarinnar er þó löngu viðurkennd og merkingin 'fara um á bíl' er fyrsta skýring sagnarinnar í Íslenskri nútímamálsorðabók. Aftur á móti er enn deilt um fallstjórnina. Í Málfarsbankanum segir: „Sögnin keyra stýrir venjulega þolfalli. Hann keyrði ömmu sína heim. Hún keyrði bílinn inn í bílskúr. Sögnin aka stýrir hins vegar yfirleitt þágufalli. Hún ók öllum heim. Hann ók bílnum inn í bílskúr.“ Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 1993: „Keyra stýrir alltaf þolfalli, aka stýrir alltaf þágufalli. Hins vegar veit umsjónarmaður […] að keyra stýrir nú stundum þágufalli, a.m.k. í talmáli: *Viltu keyra mér heim.“ Orðin „keyra stýrir nú stundum þágufalli“ benda til að Gísli hafi talið þetta nýjung í málinu fyrir 30 árum en því fer þó fjarri.

Það verður ekki betur séð en þágufall hafi verið notað með keyra við hlið þolfalls frá því að farið var að nota hana í merkingunni 'aka', þótt þolfallið hafi vissulega alltaf verið mun algengara. Í Kvennablaðinu 1905 segir: „Þá hefði einhver annar fengið að keyra mér.“ Í Kvennablaðinu 1915 segir: „eg […] keyrði henni á sleðaferðinni í vetur.“ Í Morgunblaðinu 1926 segir: „Víða var farið að rífa upp steina og keyra þeim burt úr landi sem síðar á að rækta.“ Í Bændablaðinu 2020 segir Þorsteinn Guðmundsson: „Ég ólst upp við að segja „keyra mér“ enda átti það að vera í mína þágu.“ Sama segi ég – keyra mér er mitt mál og ég tel mig vera alinn upp við það. Ljóst er að notkun þágufallsins í vísun til farþega á sér langa og ríka hefð.

Sögnin aka stjórnar þágufalli á andlagi sínu hvort sem það vísar til farþega eða farartækis – ég ók henni heim og ég ók bílnum. Þau sem nota þágufall með keyra þegar vísað er til farþega nota hins vegar yfirleitt þolfall í vísun til farartækis – ég keyrði henni heim en ég keyrði bílinn. Eða það hélt ég – þannig er a.m.k. mitt mál. En þegar ég fór að skoða þetta fann ég töluvert af dæmum um að þágufall væri notað í vísun til farartækis. Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Þú veist sjálfur ósköp vel, að jeg gaf þjer ekki leyfi til að Jón keyrði bílnum.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Það er leiðinlegt að konan þín skyldi keyra bílnum í skurð.“ Töluvert af slíkum dæmum er í Risamálheildinni þannig að notkun þágufallsins í vísun til farartækis virðist færast í vöxt.

Gísli Jónsson taldi líklegt að notkun þágufalls um farþega væri „áhrif frá fallstjórn sagnarinnar að aka, þegar hún hefur sömu merkingu og keyra“. En það er ástæðulaust að horfa einungis til aka í þessu sambandi. Fleiri sagnir svipaðrar merkingar taka líka þágufall – við tölum um að skutla mér, skjóta mér og e.t.v. fleira. Frá merkingarlegu sjónarmiði er þágufallið fullkomlega eðlilegt þarna og engin ástæða til annars en telja það jafnrétt og þolfallið enda á það sér langa hefð eins og áður segir. Þágufall í vísun til farartækis er trúlega tilkomið vegna áhrifa frá aka en það er mun yngra og dæmin um það eru miklu færri og langflest frá þessari öld. Það er því álitamál hvort það hafi náð þeirri stöðu að vera málvenja og eiga þar með að teljast „rétt mál“.