Það er ekkert til sem heitir „þágufallssýki“
Í Málvöndunarþættinum var í fyrradag bent á myndatexta á mbl.is þar sem sagði: „Bjarni Benediktsson segir af sér sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns Alþingis um að honum hafi brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins.“ Í sömu frétt sagði einnig að Bjarni væri „miður sín að hafa séð þá niðurstöðu að sér hafi brostið hæfi í söluferlinu.“ Í umræðum um þetta sagði einn þátttakenda: „Sú var tíðin að „honum brast hæfi“ hét þágufallssýki, en nú er öldin önnur, heitir víst þróun.“ Þetta er alveg rétt – orðið „þágufallssýki“ hefur lengi verið notað um það að hafa frumlag með tilteknum sögnum í þágufalli. En það var ekki notað sem hlutlaust fræðiorð, heldur til að gera lítið úr fólki, niðurlægja það og hæðast að því vegna málnotkunar sinnar.
Alvarlegust er sú sjúkdómsvæðing sem felst í heitinu. Í Samtíðinni 1943 sagði Björn Sigfússon: „Þágufallssýki er gömul á Íslandi […] En landfarsótt hefir hún aldrei verið nema á okkar dögum“ og í Austurlandi 1952 sagði hann: „Þágufallssýki er alvarlegur kvilli og smitar ört.“ Gísli Jónsson sagði eitt sinn að „þágufallsýki“ minnti „reyndar leiðinlega á limafallssýki og niðurfallssýki“ og Bubbi Morthens sagði í Fréttablaðinu 2019: „Orðið þágufallssýki er þrútið af hroka enda hafa menn gegnum tíðina notað tungumálið nánast sem valdatæki þeirra sem töluðu rétt mál og skrifuðu rétt og beitt því gegn þeim sem notuðu það ekki rétt eða gátu ekki skrifað rétt. Þeir voru settir á lúserabásinn og urðu niðursetningar íslenskrar tungu.“
Um þetta má nefna ótal dæmi. Í Morgunblaðinu 1952 segir: „Kona, sem hafði laglega rödd gerði sig seka um mikla yfirsjón í kvennatíma útvarpsins í fyrrakvöld. Tunga hennar var heltekin slæmum sjúkdómi, þágufallssýkinni illræmdu. […] Það var óskaplegt að hlusta á þetta. Ung kona með fallega rödd má ekki segja svona vitleysur. Hvorki ungir né gamlir mega syndga svona gegn frumreglum íslenzkrar tungu, sízt af öllu í útvarpinu.“ Í Morgunblaðinu 1954 segir: „Fyrir utan allt annað þjáðist flutningsmaður af magnaðri þágufallssýki. Svona manni ætti ríkisútvarpið ekki að hleypa að, það er blátt áfram skaðlegt máli og mennt. Það er krafa okkar útvarpsnotenda, að útvarpið hafi gát á, hverjum það hleypir að hljóðnemanum.“
Í Vísi 1956 segir: „Eitt var þó tilfinnanlegt í orðræðum hennar, og það var, að þessi prúða unga stúlka, sem nú stundar nám í þriðja bekk Menntaskólans, var haldin slíkri þágufallssýki, að hún gat ekki beygt þriðju persónufornafn í eintölu rétt. Sagði orðrétt: „Honum langar að tala við þig“ í stað „Hann langar að tala við þig.“ Vonandi rækir blómarósin skólanám sitt svo samvizkusamlega, að henni takist að vinna bug á þessari hvimleiðu sýki, sem virðist vera meira en lítið útbreidd hér í höfuðstaðnum.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Sennilega hefur allt verið gott og rétt, er þessir menn sögðu, en einn þeirra var svo hljóðvilltur, og þar að auki þágufallssjúkur, að hann átti sannarlega ekkert erindi að hljóðnemanum.“
En ummæli af þessu tagi birtust ekki bara í lesendabréfum í dagblöðum. Sjálft Nóbelsskáldið Halldór Laxness skrifaði í Þjóðviljanum 1959: „En skrílmenníngin hefndi sín þegar flámælinu var útrýmt: þágufallssýkin, krakkamál úr Reykjavík, óhugsandi fyrirbrigði hjá fullorðnu fólki fyrir tveim-þrem áratugum, hefur risið einsog pestarbylgja úr göturæsum höfuðstaðarins og ekki aðeins sýkt heimilin, þannig að fullorðna fólkið hefur tekið þágufallsambögurnar eftir málviltum börnum sínum, heldur brotið veggi skólanna, svo sjálfir barnakennararnir hafa í mörgu falli lyppast niður fyrir túngutaki óburðugustu skjólstæðínga sinna; þágufallssjúkir menn eru útskrifaðir úr Háskóla Íslands.“ Hér eru stóryrðin sannarlega ekki spöruð.
Og Halldór Halldórsson prófessor segir í Morgunblaðinu 1976: „Á fundinum barst talið að svo nefndri þágufallssýki. Sagði námstjórinn, að hann hefði sjálfur gefizt upp við að venja börn sín af henni. Áhrif götunnar væru svo mikil, að hann teldi það tilgangslaust og ráðlagði kennurunum að fara að dæmi sínu og láta afskiptalaust, hvort nemendurnir væru þágufallssjúkir eða ekki. […] Ég lít ekki svo á, að það sé hlutverk skóla að gefast upp fyrir áhrifum götunnar né stuðla að því, að út úr þeim komi linjumenni. Þessi stefna virðist þó eiga nokkru fylgi að fagna nú. Samkvæmt mínum skilningi er það hlutverk skóla að vinna á móti áhrifum götunnar, með öðrum orðum að leitast við að gera menn að menntamönnum, en ekki götustrákum.“
„Þágufallssýkin“ var oft tengd við höfuðborgarsvæðið en talin lítt áberandi á Norðurlandi. Þetta kemur vel fram í lesendabréfi í Tímanum 1955 þar sem sagt er að „hlakkar mig nú til“ hafi verið haft eftir nafngreindri konu í Vísi, en konan sé „góður Norðlendingur, og þess vegna útilokað, að hún hafi sagt þessa ambögu“ sem „særir […] eyru hreinna Norðlendinga“. Í Þjóðviljanum 1963 segir um nýtt leikrit: „„Elektrónískum“ áhrifum er beitt í leiknum og það óspart, en af hinum smærri stílbrögðum má nefna þágufallssjúkan Suður-Þingeying.“ Augljóslega þótti fráleitt að Þingeyingur væri þágufallssjúkur. Í Norðurlandi 1978 segir Þingeyingur um heimasveit sína: „Þágufallssýki brá fyrir á einum þremur bæjum, og var nokkuð skopast að.“
Á seinni árum er vissulega minna um það í fjölmiðlum en áður að gert sé lítið úr fólki vegna „þágufallssýki“ og annarra tilbrigða í máli. Þó bregður því fyrir enn – í Vísbendingu 2004 segir: „Þágufallssjúkur fræðimaður vekur samstundis efasemdir um færni á sínu sérsviði.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir í grein eftir (fyrrverandi) alþingismann, undir millifyrirsögninni „Þágufallssjúkur lögfræðingur“: „Næstur til að fræðast af sýslumanni og lögfræðingum hans var lögfræðingur sem sagði „mér langar að spyrja“. Að öðru leyti voru spurningarnar óskiljanlegar.“ Þarna er augljóslega verið að nota málfar til að ómerkja málflutning mælanda (reyndar kom í ljós að um misheyrn var að ræða og engin „þágufallssýki“ á ferðum).
En þótt niðrandi ummæli af þessu tagi séu sem betur fer orðin sjaldgæf í fjölmiðlum vaða þau enn uppi í athugasemdadálkum vefmiðla og á samfélagsmiðlum. Enn má eiga von á að rekast á fordómafull ummæli eins og í Bæjarblaðinu 1957: „Hins vegar stafar þágufallssýkin bæði af vanþekkingu og trassaskap. Það er hreint og beint viðbjóðslegt að heyra fólk segja: „Mér langar á bíó“, eða „Henni hlakkar til jólanna“.“ Þetta er ljótt – þetta er mannfjandsamlegt. Og það er einnig og ekki síður fjandsamlegt íslenskunni. Guðbergur Bergsson sagði í viðtali í blaðinu 2006: „Ég kunni ekki að skammast mín fyrir það að fólkið heima var þágufallssjúkt og flámælt.“ Við eigum ekki að skammast okkar fyrir það mál sem við erum alin upp við.