Ekkert smá fjölhæft orð

Fjöldi íslenskra orða hefur forliðinn smá-, stofn lýsingarorðsins smár. Þar má nefna smábátur, smábær, smákrimmi, smálán, smámunir, smásaga, smásjá, smáþjóð og fjölmörg önnur. En í nútímamáli kemur smá líka mjög oft fyrir sem sjálfstætt orð. Í Slangurorðabókinni frá 1982 er það gefið upp sem atviksorð í merkingunni 'smávegis, aðeins' með dæmunum æ lækkaðu smá í fóninum og má ég stela mér smá? Í Íslenskri orðabók er það einnig gefið upp sem atviksorð og sagt óformlegt en í Íslenskri nútímamálsorðabók er það sagt geta verið bæði atviksorð og lýsingarorð. Lýsingarorðið, sem ekki er nefnt að sé óformlegt, er skýrt 'dálítill, svolítill' með dæmunum geturðu gefið mér smá eplasafa? og hann gat gert við bílinn með smá aðstoð.

Væntanlega er smá upphaflega stytting úr smávegis sem er gamalt orð. Í dæmunum hér að framan er hægt að setja smávegis í stað smá en það er alls ekki alltaf hægt sem sýnir að að tengsl smá við upprunann hafa dofnað og orðið er farið að lifa sjálfstæðu lífi í ýmsum merkingum. Það vísar oft til tímalengdar, t.d. í „Það leið smá tími meðan við vorum að bíða eftir honum út“ í Morgunblaðinu 1996. Þarna er varla hægt að segja *smávegis tími. Það breytir líka merkingu að setja smávegis í stað smá þegar það merkir 'smátt og smátt', eins og í „Síðar jörðin myndaðist hefir farið smá hlýnandi þar“ í Lesbók Morgunblaðsins 1958. En svo er smá líka mjög algengt í sambandinu eftir smá þar sem það er stytting á smá stund og er því í raun nafnorð.

Elsta dæmi sem ég finn um smá sem sjálfstætt orð er í Akureyrarpóstinum 1886 þar sem segir: „En þegar um alvarlegt efni er að ræða, má enginn smá ágreiningur valda flokkadráttum.“ Lengi framan af virðist smá hafa verið algengast með neitun, bæði sem atviksorð og lýsingarorð, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er atviksorðsmerkingin eingöngu tilgreind í sambandinu ekkert smá sem er sagt óformlegt og skýrt 'ekki lítið' (raunar væri 'mjög' eðlilegri skýring) með notkunardæminu húsið þeirra er ekkert smá glæsilegt. En ekkert/engin/enginn smá getur líka staðið sem lýsingarorð, í merkingunni 'mjög stór'. Sambandið ekkert smá er enn mjög algengt, en smá er líka mjög oft notað án þess að neitun fylgi, einkum á seinni árum.

Í ýmsum dæmum þar sem smá stendur á undan lýsingarorði eða nafnorði er vissulega ekki hægt að útiloka að það sé í raun fyrri hluti samsetts orðs frekar en sjálfstætt orð þótt orðabil sé á milli í prentuninni, en eðlileg áhersla mælir gegn því. Við það bætist að smá er oft notað með orðum sem tákna stærð og því fælist annaðhvort tvítekning eða mótsögn í orðinu ef um samsetningu væri að ræða. Í Vísi 2018 segir: „Við vorum með eitt fall, smá lítil mistök.“ Á mbl.is 2020 segir: „bumban á mér var smá stór.“ Á Hugi.is 2008 segir: „Þetta var samt enginn smá risi ef ég man rétt.“ Erfitt er að hugsa sér *smálítill og *smástór sem lýsingarorð eða *smárisi sem nafnorð. Í dæmunum smá lítil og smá stór er líka erfitt eða útilokað að setja smávegis í stað smá.

Á síðustu árum hefur smá orðið gífurlega algengt – í Risamálheildinni eru um 560 þúsund dæmi um það. Megnið af þeim er af samfélagsmiðlum en þó eru um 100 þúsund dæmi úr öðrum textum þannig að það á líka traustan sess í formlegra málsniði. Vissulega er talsvert af þessum dæmum um lýsingarorðið smár en það er mikill minnihluti. Notkun orðsins er mjög fjölbreytt – fyrir utan að standa með lýsingarorðum og nafnorðum stendur það oft með atviksorðum, ekkert smá vel, og í lok segðar: „Trylltur súkkulaðibúðingu sem fær þig til að skæla smá“ segir í Morgunblaðinu 2021, „jú fyrirgefðu ég var kannski að rugla smá“ segir á Bland.is2004, „bræðið smjör í potti og kælið smá“ segir á Bland.is 2010. Ýmis fleiri afbrigði mætti nefna.