Í fullu fangi
Í fyrrakvöld heyrði ég sagt í sjónvarpsfrétt: „Flestir ættu líklega í fullu fangi með að ganga upp hátt í 3000 tröppur.“ Mér fannst augljóst að þarna væri verið að nota orðasamband sem ég þekki í myndinni eiga fullt í fangi með og hugsaði með mér að það væri greinilega að breytast, enda hef ég heyrt þessa mynd áður fyrir ekki löngu. Það er svo sem ekkert einsdæmi að föst orðasambönd breytist með tímanum, sérstaklega ef uppruni þeirra eða líkingin sem þau byggjast á er ekki alveg ljós. Oft kalla slíkar breytingar fram athugasemdir um misskilning, afbökun, vankunnáttu og annað slíkt. En ég fór að kanna málið og komst að því að þetta orðasamband á sér ýmis tilbrigði og því fer fjarri að eiga í fullu fangi sé einhver nýjung eins og ég hélt.
Í bókinni Mergur málsins skrifar Jón G. Friðjónsson ítarlega um eiga fullt í fangi og hafa fullt í fangi sem hvort tveggja merkir 'eiga í erfiðleikum með, geta með erfiðismunum, mega hafa sig allan við'. Jón bendir á að hafa sé upphaflega sögnin í orðasambandinu sem eigi rætur í fornu máli – í Snorra-Eddu segir um Þór: „hann hefur fullt fang að berjast við Miðgarðsorm.“ Sögnin eiga kemur inn í sambandið á 19. öld – „myndina eiga fullt í fangi (með e-ð) […] má rekja til merkingarinnar 'eiga í erfiðleikum með e-ð'“ segir Jón. Langalgengast er að forsetningin með fylgi öllum afbrigðum sambandsins en einnig hefur alltaf verið nokkuð um forsetninguna við – „Höfðu þeir kolsýrutæki og áttu fullt í fangi við eldinn“ segir í Morgunblaðinu 1964.
Auk afbrigða með eiga/hafa fullt í fangi nefnir Jón myndina sem ég heyrði í sjónvarpinu, í fullu fangi, sem kemur fyrir þegar á 19. öld. Í Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags 1884 segir: „höfðu Englendingar þeir, er þar stóðu fremstir fyrir, í fullu fangi að verjast.“ Í Æringja 1908 segir: „Dætur átti Karl margar, og átti hann í fullu fangi með að sjá þeim fyrir kvonfangi.“ Á tímarit.is er á þriðja hundrað dæma um í fullu fangi, langflest með eiga þótt hafa bregði fyrir. Dæmin eru sárafá lengi framan af en fjölgar á seinustu áratugum 20. aldar og einkum eftir aldamót. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt á fjórða hundrað, meginhlutinn frá því eftir 2010 þannig að notkun þessa afbrigðis orðasambandsins virðist vera að færast talsvert í vöxt.
Þetta dæmi sýnir vel að þótt við heyrum afbrigði orðasambands sem hljómar ókunnuglega þarf ekki að vera um nýjung eða misskilning að ræða – afbrigðið getur verið gamalt þótt við þekkjum það ekki, og það er ekkert óvenjulegt eða óeðlilegt þótt upp komi mismunandi tilbrigði orðasambanda sem fólk áttar sig ekki alveg á. Í Íslenzku orðtakasafni segir Halldór Halldórsson: „Líkingin í orðtakaafbrigðunum er dregin af því, er menn hafa fangið fullt af e-u, sem erfitt er að bera.“ Jón G. Friðjónsson segir aftur á móti: „Líkingin vísar trúlega til fangbragða […].“ Þar eð tveir helstu sérfræðingar okkar í orðasamböndum eru ekki sammála um líkinguna að baki sambandinu er ekki undarlegt að ýmis tilbrigði þess komi upp hjá venjulegum málnotendum.