Bölvað gagnsæið

„Hingað til hefur það verið talin ein höfuðprýði og meginkostur íslenzkrar tungu, hve gagnsæ orðin eru“ sagði Gísli Magnússon í Samvinnunni 1971. Sigurður Líndal sagði í Málfregnum 1988: „[O]rð af innlendum uppruna eru einatt gagnsæ, þannig að hver maður, sem málið kann, getur skilið þau.“ Sigurður Kristinsson sagði í Skírni 2001: „[Í]slenskan hefur það sérkenni sem oftast er kostur að vera gagnsæ. Flókin hugtök má þýða á íslensku með því að setja saman orð á þann hátt að merking hugtaksins blasir við þeim sem heyrir á það minnst í fyrsta skipti.“ Ágústa Þorbergsdóttir er varfærnari: „Með gagnsæi er átt við að orðið sé lýsandi og hægt sé að lesa út úr orðinu merkingu þess eða a.m.k. vísbendingu um merkingu þess“, Orð og tunga 2020.

Ég held að gagnsæið sé stórlega ofmetið. Vissulega getur verið hjálp í því að geta tengt ný orð við önnur kunnugleg, en sú tenging dugir þó sjaldnast til að skýra nýju orðin til fulls – yfirleitt þurfum við að læra hvernig tengingunni er háttað. Gott dæmi er orðið útihús sem við getum tengt við atviksorðið úti og nafnorðið hús, en dugir það? Við getum giskað á að þetta sé einhvers konar hús, en úti segir ekki mikið – öll hús eru úti í einhverjum skilningi. Við þurfum að læra sérstaklega að orðið merkir 'önnur hús en íbúðarhús á sveitabæ, t.d. fjós og fjárhús' – ekkert í orðinu sjálfu gefur vísbendingu um þá merkingu. Og gleraugnahús er ekki einu sinn hús – nærtækast væri að giska á að það merkti 'gleraugnaverslun' enda hefur það verið notað þannig.

Oft er líka teygt ansi mikið á gagnsæinu. Bergljót S. Kristjánsdóttir segir í Ritinu 2011: „En af því hve íslensk orð eru gjarna gagnsæ mætti líka taka mið af að orðið hryðjuverkamaður er stofnskylt sögninni „hrjóða“ sem merkir ,að ryðja burt‘ – og tengja það samtímahugmyndum um hryðjuverkamenn og sprengjur.“ Ég stórefa að almennir málnotendur átti sig á þessari tengingu við hina sjaldgæfu sögn hrjóða. Í Lesbók Morgunblaðsins 1999 segir Eiður Guðnason: „Þota og þyrla eru nokkuð gagnsæ orð og fela að auki í sér hljóðlíkingu.“ Þótt þota og þyrla séu frábær orð og eigi vel við þau fyrirbæri sem þau lýsa gætu þau líka vísað til fjölmargra annarra og gerólíkra fyrirbæra – og gera það í samsetningum, s.s. snjóþota, sláttuþyrla o.fl.

Í áðurnefndri grein Sigurðar Kristinssonar viðurkennir hann að vissulega geti „gagnsæi íslenskunnar verið galli ef hin gagnsæja merking gefur villandi hugmynd um fyrirbærið sem vísað er til“. Þessi galli kom mjög greinilega í ljós í nýlegri umræðu um orðið feðraveldi sem sumum fannst villandi og tengjast feðrum á óheppilegan hátt. Slíkar tengingar trufla fólk oft meðan orð eru nýleg eða ekki mjög þekkt, en svo er eins og mörg algeng orð, einkum þau sem tengjast engum viðkvæmum málum eða tilfinningum, hætti með tímanum að vekja slík hugrenningatengsl. Alþekkt dæmi er eldhús sem við tengjum sjaldnast við eld og hús jafnvel þótt þeir orðhlutar séu augljósir í samsetningunni – orðið lifir sjálfstæðu lífi óháð upprunanum.

Jón Hilmar Jónsson nefnir annan galla í Málfregnum 1988: „Það er og einkenni gagnsærra samsetninga og kann að þykja ókostur að þær hneigjast til að marka sér þrengra merkingarsvið en þau orð hafa sem þær standast á við. í því sambandi má nefna erlenda orðið „video“ sem bundið er víðu merkingarsviði. Íslenska orðið myndband og samsetningar af því hafa hvert um sig miklu þrengri vísun og merkingu.“ Reyndar er myndband dæmi um orð sem hefur slitið sig frá uppruna sínum á þeim 35 árum sem liðin eru. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt bæði 'segulband sem geymir mynd og hljóð, myndbandsspóla' og 'stutt kvikmynd eða myndskeið, einkum í tengslum við popptónlist'. Merkingin hefur þróast með merkingarmiðinu.

Ég held sem sé að þótt gagnsæið geti vissulega haft kosti séu ókostirnir síst minni. Þess vegna er oft heppilegra að taka upp erlend orð og laga þau að hljóðkerfi og beygingakerfi íslenskunnar en leggja ofuráherslu á að ný orð eigi sér íslenska ættingja – séu „gagnsæ“. Þórarinn Eldjárn tók goðsögnina um gagnsæi íslenskunnar ágætlega fyrir í Morgunblaðinu 2015 og sagði: „Ekkert orð er gagnsætt nema það sé samsett úr öðrum orðum eða leitt af öðru orði. Ef samsetningarnar eru leystar upp eða frumorðið fundið endum við alltaf á orðum sem eru ekkert frekar gagnsæ í íslensku en í öðrum málum.“ Hann mælti með tökuorðum og sagði: „Hvorugkynsnýyrðið app, fleirtala öpp, er […] mun betra orð en hið „gagnsæja“ smáforrit.“