Þegar hér er komið við sögu
Sambandið þegar hér / þar / þarna er / var komið sögu(nni) er gamalt í málinu og kemur fyrir þegar í fornu máli – „var kominn til Ólafs konungs þá er hér er komið Ólafs sögu“ segir t.d. í Fóstbræðra sögu og „þar til er nú er komið sögunni“ í Færeyinga sögu. Elsta dæmið á tímarit.is er í Skírni 1844: „Hjer við bættist, að nú var kominn tími til, þá hjer var komið sögunni, að kjósa fulltrúa.“ Í nokkrum elstu dæmum á tímarit.is er notuð myndin sögunni og sú mynd er algengari en sögu fram um 1930. Einnig var á þeim tíma algengt að eignarfornafn eða nafnorð í eignarfalli fylgdi sögu, t.d. „Þegar hjer var komið sögu vorri, var en nýja þingseta byrjuð“ í Skírni 1870 og „Þegar hér var komið sögu læknisins, litu allir ósjálfrátt til himins“ í Vísi 1914.
Sambandið þegar hér er komið sögu víkur frá eðlilegu talmáli á ýmsan hátt eins og algengt er um föst orðasambönd – í orðaröð, orðanotkun og beygingu. Eðlilegt mál væri t.d. þegar sagan er komin hingað, þegar hingað er komið í sögunni eða eitthvað slíkt. Það er eðlilegt að venjulegir málnotendur átti sig ekki á gerð sambandsins, t.d. að sögu er í raun þágufallsfrumlag með koma (sögunni er komið hér) því að koma tekur venjulega nefnifallsfrumlag (nema í koma í hug / til hugar). Í slíkum tilvikum má búast við að föst orðasambönd breytist, og sú er raunin með þetta – „Í nútímamáli bregður fyrir í sömu merkingu orðasambandinu þegar hér var komið við sögu en ekki styðst það við málvenju“ segir Jón G. Friðjónsson í Merg málsins (2006).
Sambandið koma við sögu þar sem koma við merkir 'snerta, tengjast' er einnig mjög algengt í málinu og hefur verið lengi – „Millum þeirra sitja þrjár konur, er tákna þær borgir, er svo mjög koma við sögu siðabótarinnar“ segir t.d. í Skírni 1869. En í seinni tíð slær samböndunum þegar hér er komið sögu og koma við sögu iðulega saman eins og fram kemur hjá Jóni G. Friðjónssyni. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1948: „Á stríðsárunum hafði hann verið starfandi í fjármálaráðuneytinu og var er hér var komið við sögu verzlunarmálaráðherra.“ Annað dæmi er í Fylki 1969: „Þegar hér er komið við sögu, hafði Þórunn Jónsdóttir frá Túni haft á hendi matsölu, rekið matsölu, í Þingholti við Heimagötu um tveggja ára skeið.“
Þetta eru einangruð dæmi, en árið 1973 eru tvö dæmi, 1974 og 1975 þrjú hvort ár, og eftir það fer dæmunum ört fjölgandi, einkum þó eftir miðjan níunda áratuginn. Alls er hátt á áttunda hundrað dæma um þegar hér / þar er / var komið við sögu á tímarit.is, og hátt á níunda hundrað í Risamálheildinni. Þessi dæmi eru úr textum af öllu tagi og ekki síður úr formlegu málsniði en óformlegu. Þótt Jón G. Friðjónsson hafi sagt „ekki styðst það við málvenju“ er rétt að hafa í huga að þau orð eru hátt í 20 ára gömul. Á þeim tíma var sambandið talsvert sjaldgæfara en nú en málvenjan hefur fest sig í sessi. Því er óhjákvæmilegt að taka þegar hér er komið við sögu í sátt og viðurkenna það sem gott og gilt mál, við hlið þegar hér er komið sögu.