Sími – frábært orð, en ógagnsætt

Einhvern tíma á skólaárum mínum, annaðhvort í gagnfræðaskóla eða á fyrstu árum í menntaskóla, lét íslenskukennarinn okkur skrifa niður þau nýyrði sem best þóttu heppnuð ásamt höfundum þeirra – sem auðvitað voru allt karlmenn. Kannski á ég þennan lista enn þótt ég finni hann ekki í svipinn en ég man eitthvað af honum – a.m.k. orðin samúð eftir Björn Bjarnason frá Viðfirði og andúð sem Sigurður Guðmundsson skólameistari bjó til. Þetta eru mjög góð orð og tiltölulega gagnsæ, a.m.k. fyrri hlutinn, þótt tengsl seinni hlutans -úð við orðið hugur eða hugð liggi kannski ekki í augum uppi. En svo var það auðvitað orðið sími sem kallað hefur verið „eitt snjallasta nýyrði, sem komið hefur upp“ – og það maklega að margra mati.

Áður höfðu verið notuð orð eins og hljómþráður, hljóðberi, hljóðþráður, málþráður, málmþráður og talþráður til að þýða telefon (og/eða telegraf) en sími sást fyrst á prenti í Nýrri danskri orðabók með íslenzkum þýðingum sem kom út 1896. Þar er að finna flettiorðin Telefon sem skýrt er 'talsími, hljómberi' og Telegraf sem skýrt er 'ritsími (fréttaþráðr, málþráðr, fréttafleygir)'. Aðalhöfundur orðabókarinnar var Jónas Jónasson frá Hrafnagili en Steingrímur Thorsteinsson og Pálmi Pálsson kennarar við latínuskólann voru fengnir „til þess að yfirfara handritið undir prentun og laga það sem laga þyrfti“. Pálma er jafnan eignaður heiðurinn af orðinu sími sem kemur fyrir í fornu skáldamáli, þó ekki síður í hvorugkynsmyndinni síma.

Í formála orðabókarinnar segir Björn Jónsson: „En […] þýðingar þær, er notaðar hafa verið á orðinu Telegraf […] eru hver annari lakari að vorum dómi: «fréttaþráðr », «fréttafleygir», «málþráðr» (sem eins getr verið Telefon, eða öllu heldr þó), «endariti», og þar fram eftir götunum. Höfum vér eigi hikað við að stinga þar upp á alveg nýju orði, þótt vér göngum að því vísu, að ýmsir muni tjá sig «eigi kunna við það». Orð þetta («ritsími», eða að eins «sími») hefir þá kosti fram yfir «þráðr» og samsetningar af því orði, vegna þess að það er nú lítt tíðkað í málinu, þá ríðr það ekki í bága við aðrar merkingar, eins og orðið «þráðr» gerir svo meinlega; það er mjög hljómþítt; og það er einkar-vel lagið til afleiðslu og samskeytinga.“

Björn heldur áfram: „Teljum vér engan vafa á því, að orð þetta þætti góðr gripr í málinu, ef jafnsnemma hefði verið upp hugsað eins og hin orðin («fréttafleygir» o.s.frv.). Fáum vér eigi skilið, að oss þurfi að verða meira fyrir að segja «að síma», heldr en enskumælandi lýð «to wire».“ Orðið sími sló líka í gegn strax í lok 19. aldar enda er það eins vel heppnað orð og verða má. Það hefur einungis að geyma algeng hljóð og enga samhljóðaklasa – er því auðvelt í framburði og „hljómþýtt“ eins og Björn sagði. Það tilheyrir mjög stórum beygingarflokki og hefur engin hljóðavíxl í beygingunni og er því auðvelt í meðförum. Það er stutt og því mjög þægilegt í samsetningum og afleiðslu – sögnin (tal/rit)síma var t.d. strax búin til.

Valdimar Ásmundsson sagði þó í Fjallkonunni 1898: „Bezt hygg ég að taka upp útlenda orðið „telegraf“, eins og allar aðrar þjóðir hafa gert, og eins „telefón“, og svo mundu forfeður vorir líka hafa gert á gullöld íslenzkunnar (sbr. ,,symfón“).“ Og Þórarinn Eldjárn sagði í Morgunblaðinu 2015: „Fónn hefði ekki verið neitt ósíslenskulegra orð fyrir þetta áhald. Sími hefur ekkert fram yfir fón annað en hreinan uppruna.“ Orðið er nefnilega ekki „gagnsætt“ þótt við getum svo sem reynt að telja okkur trú um að svo sé, vegna þess að sími/síma merki ‚þráður‘ þótt það sé nú „lítt tíðkað í málinu“. En venjulegir málnotendur hafa ekki hugmynd um það – og auk þess væri það gagnsæi horfið í nútímamáli vegna þess að allir símar eru nú þráðlausir.