Hvað varð um sögnina síma?

Sögnin síma er leidd af nafnorðinu sími og jafngömul – bæði orðin birtust fyrst á prenti í Nýrri danskri orðabók með íslenzkum þýðingum árið 1896. Þar er að finna flettiorðin Telefonere sem er skýrt 'talsíma (tala í – senda skeyti með – […] talsíma)' og Telegrafere sem er skýrt 'ritsíma (senda ritsímaskeyti […])'. Sögnin komst fljótlega í notkun – elsta dæmi sem ég finn er í Bjarka 1899: „Um öll lönd er nú farið að skrifa og síma (telegrafera) um verksynjunina í Danmörku.“ Í Bjarka 1900 segir: „Londonarblaðið »Lloyd's weekly« segir að Kaupmannahafnarblaði einu hafi verið símuð frá Vardö þessi orð á Finsku: »Andrée er frelsaður«. Í Norðurlandi 1902 segir: „Hann hefir símað til mín og spurt mig, hvort eg geti sent sér mann í miklu snatri.“

Sögnin varð brátt mjög algeng, einkum þolmyndin er símað sem var notuð um fréttaskeyti: „Frá Berlín er símað, að nýir erfiðleikar séu komnir um friðarsamningana“ segir t.d. í Alþýðublaðinu 1920. Þessi notkun sagnarinnar varð gífurlega algeng á þriðja áratugnum en eftir það fór að draga úr henni. Notkun sagnarinnar í germynd var aftur á móti mikil fram um 1960 en minnkaði mjög ört eftir það, og um 1980 var notkunin bæði í germynd og þolmynd orðin mjög lítil. Dæmi um sögnina frá síðustu árum á tímarit.is eru sárafá, og flest úr eldri textum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin sögð „gamaldags“. Í ljósi þess að nafnorðið sími er enn gífurlega algengt er merkilegt að samstofna sögn skuli nær horfin úr málinu.

Í Íslenskri orðabók er síma skýrð 'hringja, tala við e-n í síma' og 'senda skeyti í síma' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'hringja (og tala) í síma'. En þarna kemur ekki fram að síma hagar sér setningafræðilega allt öðruvísi en bæði hringja og tala – getur tekið tvö andlög eins og t.d. senda. Í Dagblaðinu 1906 segir: „Konungur vor símaði ráðherranum á Laugardaginn þessa orðsendingu.“ Í eldri dæmum af þessu tagi er oftast um símskeyti að ræða, en í yngri dæmum væntanlega yfirleitt símtöl. Í Morgunblaðinu 1951 segir: „Frjettaritari Mbl. í Vestmannaeyjum símaði blaðinu í gærkvöldi þessar frjettir.“ Í Morgunblaðinu 1966 segir: „Fréttaritari Mbl. í Mýrdalnum símaði okkur fréttina sem hér fer á eftir.“

Oftast er andlagið þó aðeins eitt. Stundum er það seinna (beina) andlagið, það sem vísar til þess efnis sem símað er. Viðtakandinn er þá oft hafður í forsetningarlið, eins og „Fréttaritarinn símaði fréttina til blaðsins“ í Alþýðublaðinu 1947. Að þessu leyti hagar síma sér eins og senda. En einnig er hægt að hafa aðeins fyrra (óbeina) andlagið, það sem vísar til viðtakandans, eins og „Fréttaritari Alþýðublaðsins á Sauðárkróki símaði blaðinu í gærkveldi á þessa leið“ í Alþýðublaðinu 1942, eða forsetningarlið í staðinn, eins og „Isobel kemur aftur í kvöld – eg símaði til hennar“ í Vísi 1937. Þannig er ekki hægt að nota senda. Einnig er hægt að nota síma án andlags eða forsetningarliðar – „hann símaði, að eg skyldi ekki koma“ í Þjóðviljanum 1911.

Undanhald sagnarinnar síma virðist hafa hafist á sjötta áratugnum og verið hratt á þeim sjöunda. Í Morgunblaðinu 1958 segir Guðmundur Ágústsson: „Hér er annað stutt og gott orð, sem mér er sárt um að missa, en það er síma-heitið, sem við megum vara okkur á að missa ekki sem sagnorð. […] [B]reytingin kemur smám saman, án þess að því sé gaumur gefinn, en slíkar breytingar eru einmitt varasamastar – og þannig breytist tungan. Mér virðist nefnilega fleiri og fleiri vera að hætta að tala um að síma – til kunningjans, eða í búðina – heldur bara hringja til hans, en hér er þó meiningamunur, sem engin ástæða er til að rugla saman. Víst þarf að byrja á að hringja áður, en símað er til einhvers, en vissulega er símtalið þó aðalatriðið […].“

Það er ljóst að engin ein sögn getur komið í stað síma nema í einstöku tilvikum, eins og „Hann símaði að minnsta kosti einu sinni á dag“ í Fálkanum 1955, þar sem hægt er að setja hringja í staðinn. En í dæmum eins og „Kolur símaði mér að þið væruð á leiðinni“ í Þjóðviljanum 1938 er hvorki hægt að nota hringja tala í stað síma, heldur verður að segja Kolur hringdi í mig og sagði að þið væruð á leiðinni – eða Kolur sendi mér skeyti um að þið væruð á leiðinni. Í dæmum eins og „Fréttaritari Þjóðviljans í Mývatnssveit, Starri í Garði, símaði blaðinu þessa frétt í gær“ í Þjóðviljanum 1970 verður að segja Fréttaritari Þjóðviljans hringdi í blaðið í gær og sagði þessa frétt eða til að segja þessa frétt eða eitthvað slíkt.

Hvernig stendur á því að svona lipur og þægileg sögn hvarf nánast úr málinu á tveimur áratugum á seinni hluta síðustu aldar, þrátt fyrir að símanotkun hafi margfaldast? Ég get ekkert fullyrt um það en hér er hugmynd: Sögnin síma felur ekki bara í sér að hringja og tala, heldur er verið að flytja einhver boð – að síma hefur tilgang. Hrun í notkun sagnarinnar síma fer saman við aukningu og breytingu á símanotkun. Áður áttu færri síma, símtöl voru dýrari, og höfðu því oftast tilgang. En með almennari símaeign og ódýrari símtölum breyttist þetta og fólk fór að hringjast á án þess að samtalið hefði sérstakan tilgang – og þá átti sögnin síma ekki lengur við. Auðvitað er þetta gróf alhæfing en það má mikið vera ef ekki er eitthvað til í þessu.