Að hryggja

Ég sá á Facebook-síðu vinar vitnað í ályktun frá ungu Framsóknarfólki þar sem stóð: „Ungt Framsóknarfólk hryggir að Ísland hafi ekki tekið afstöðu með vopnahléi í mannskæðum átökum við Gaza svæðið.“ Sá sem setti þetta inn sagði: „[M]aður (eða framsóknarfólk) hryggir ekki einhvern atburð eða staðreynd, slíkt harmar maður. Hins vegar geta atburðir eða staðreyndir eftir atvikum og réttilega hryggt mann (eða framsóknarfólk).“ Það er alveg rétt að venjulega væri sögnin harma notuð í setningum af þessu tagi og í fljótu bragði mætti ætla að notkun hryggja þarna sé einhvers konar mistök eða stafi af vankunnáttu. En þegar setningin er skoðuð nánar kemur samt í ljós að hún gæti alveg staðist, merkingarlega og setningafræðilega.

Sögnin hryggja merkir 'gera (e-n) hryggan, sorgmæddan' og stjórnar þolfalli á andlagi sínu. Frumlag hennar, það sem hryggir, er yfirleitt ekki persóna heldur atburður eða fyrirbæri eins og notkunardæmin orð hans hryggðu hana mikið og það hryggir <mig> að heyra þetta í Íslenskri nútímamálsorðabók sýna vel. Frumlagið er í nefnifalli (þótt þessi dæmi sýni það reyndar ekki) en samt sem áður má finna slæðing af dæmum þar sem orð í þolfalli kemur á undan sögninni. Þekkt dæmi er í ljóði eftir Þorstein Erlingsson sem birtist fyrst í Sunnanfara 1893: „Mig hryggir svo mart, sem í mínum huga felst“. Í Hrópinu 1905 segir: „Mig hryggir misskilningur og villa prestanna.“ Í Vísi 2022 segir: „Okkur hryggir að tilkynna ykkur að við erum að skilja.“

Þótt þarna komi þolfall á undan hryggja en ekki nefnifall er ekki verið að nota sögnina rangt í þessum dæmum, heldur er þolfallsorðið í raun andlag sem er fært fram fyrir sögnina í stað þess að koma á eftir henni eins og andlög gera venjulega. Þá verður frumlagið að fara aftur fyrir sögnina því að í íslensku er aðeins hægt að hafa einn setningarlið á undan sögn í persónuhætti (framsöguhætti eða viðtengingarhætti). Slík færsla (sem setningafræðingar kalla kjarnafærslu) er algeng í íslensku, sérstaklega ef frumlagið er „þungt“ – fleiryrt eða jafnvel heil aukasetning. Runurnar svo margt sem í mínum huga felst, misskilningur og villa prestanna og að tilkynna ykkur að við erum að skilja í setningunum hér að framan eru allt dæmi um „þung“ frumlög.

Hægt er að greina setninguna sem vísað var til í upphafi á sama hátt. Orðarunan að Ísland hafi ekki tekið afstöðu með vopnahléi í mannskæðum átökum við Gaza svæðið er „þungur“ liður sem hefur því tilhneigingu til að standa á eftir sögninni og andlagið þá að koma á undan henni í staðinn. Það er hins vegar langalgengast að setningar hefjist á frumlagi, og langalgengast að frumlag sé í nefnifalli. Þegar við rekumst á setningu þar sem fyrsti liðurinn gæti verið nefnifall er því eðlilegt að túlka hann sem frumlag og vegna þess að nafnliðurinn ungt Framsóknarfólk er eins í nefnifalli og þolfalli er ekki augljóst að um andlag sé að ræða. Sú greining getur þó alveg staðist eins og ég hef sýnt, og er í fullu samræmi við reglur málsins um setningagerð.