Vopnahlé eða hvíld

Eitt algengasta og mikilvægasta orðið í umræðum þessa dagana er vopnahlé. Það orð er gamalt í málinu en kemur þó ekki fyrir í fornsögum þrátt fyrir mikinn fjölda bardagalýsinga í þeim. Elstu dæmi um orðið eru í Minnisverðum tíðindum frá lokum 18. aldar – „hann lét sér í tíma segiast og keypti sér vopna-hlé uns fridur ákiæmi“ 1797 og „áleit Pignatelli, það naudsynlegt, að tilbjóda franska Herforíngjanum vopnahlé“ 1798. Orðið var algengt strax á seinni hluta 19. aldar en tíðnin margfaldaðist við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Það dró úr notkun orðsins á millistríðsárunum en allt frá því að fór að hilla undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar hefur það verið mjög algengt, enda ekkert lát á hvers kyns styrjöldum og skærum.

Eitt dæmi er um hlé í þessari merkingu í fornmáli – „þá er nokkuð hlé varð á bardaganum“ segir í Rómverja sögu. En annars er notað orðið hvíld. Það gat vissulega líka merkt 'það að hvíla sig' eins og það gerir enn, en í langflestum dæmum um orðið í Íslendingasögum, Sturlungu og Heimskringlu er það þó notað um hlé á bardaga. Í Brennu-Njáls sögu segir: „Þeir tóku hvíld og sóttu að í annað sinn.“ Í Egils sögu segir: „Þá beiddist Ljótur hvíldar.“ Í Gísla sögu segir: „Verður nú hvíld á aðsókninni.“ Í Heiðarvíga sögu segir: „Nú verður á hvíld nokkur og binda menn sár sín.“ Í Heimskringlu segir: „Eftir þetta varð hvíld á orustu og greiddust sér hvor skipin.“ Í Sturlungu segir: „Þeir börðust lengi nætur og tóku hvíldir sem við skinnleik.“

Nokkur dæmi eru um þessa merkingu orðsins hvíld á 19. öld. Í Skírni 1848 segir: „Frá því nú og til þess um dagmál daginn eptir (þann 24.) varð svo að segja engin hvíld á orustunni.“ Í Skírni 1864 segir: „Bardaginn tókst um miðnætti með hörðustu atgöngu og varð engi hvíld á í fjórar stundir.“ Í Skírni 1877 segir: „Nú varð nokkur hvíld á bardögunum.“ En vissulega má segja að hvíld merki ekki alveg sama og vopnahlé. Oftast er vopnahlé formleg ákvörðun sem aðilar semja um, þótt stundum sé um einhliða ákvörðun annars aðila að ræða, en hvíld er óformlegt hlé að frumkvæði annars eða beggja aðila og engir formlegir samningar gerðir um það. Þetta breytir því þó ekki að bæði hvíld (í eldra máli) og vopnahlé merkir 'hlé á bardaga'.

Ég ætla samt ekki að leggja til að við hættum að tala um vopnahlé og tökum aftur upp orðið hvíld – til þess er hvíld of almennt orð auk þess sem vopnahlé á sér langa hefð. Vissulega má segja að það sé gagnsætt að nokkru marki – við vitum hvað bæði vopn og hlé merkir. Við þurfum samt að vita hver tengsl orðhlutanna eru og auðvitað gætu þau verið önnur – vopnahlé gæti alveg eins merkt 'hlé til að vopnast'. En vegna þess að við þekkjum orðið og vitum hvað það merkir hugsum við ekki út í þetta. Öðru máli gegnir með orðið mannúðarhlé sem er nýtt – þar þurfum við að læra hver tengsl orðhlutanna eru og átta okkur á því að orðinu er ekki ætlað að merkja 'hlé á mannúð' þótt sannarlega hafi verið gert langt hlé á mannúð á Gaza-svæðinu.