Málfar í Skrekk

Eins og ég sagði hér frá um daginn tók ég þátt í því í síðustu viku að velja sigurvegara „Skrekkstungunnar“ sem veitt er fyrir jákvæða og skapandi notkun á íslensku máli í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Það er ljóst að málnotkun í keppninni féll ekki að smekk allra því að í morgun fékk ég tölvupóst: „[Þ]ú átt alla mína samúð fyrir að hafa þurft að sitja undir Skrekk í gær – og eiga að finna ljósan punkt í notktun [svo] íslensku hjá einhverjum skólanna. Það virðist hafa tekist skv. fréttum. En gengdarlausar [svo] sletttur [svo], meira að segja þegar verið var að höfða til íslenskufræðingsins í hópi dómara, ullu [svo] vanlíðan hjá áhorfendum á mínu heimili. Spurning hvort RÚV gæti ekki fylgt stefnu um að sleppa slettum?“

Nú skal ég ekki gera lítið úr því að óhefðbundin málnotkun geti valdið fólki hugarangri eins og nýlegar rannsóknir hafa sýnt. En markmiðið með því að meta málnotkun í keppni af þessu tagi getur ekki verið að fá fram eitthvert dauðhreinsað mál sem er fjarri eðlilegu máli unglinga heldur að ýta undir það að íslenska sé notuð. Það markmið náðist – það var sungið á ensku í mörgum atriðum en enska var ekki töluð, og ýmis atriði voru eingöngu á íslensku, bæði tal og söngur. Vissulega var eitthvað um enskuslettur en þær þjónuðu yfirleitt tilgangi og féllu eðlilega inn í textann. Við völdum atriði Langholtsskóla og erum stolt af því vali en satt að segja var valið alls ekki auðvelt því að í ýmsum atriðum var íslenskan notuð á frjóan og frumlegan hátt.

Mér sýnist sem sé að sendandi töluvupóstsins hafi verið að horfa á einhverja aðra keppni en ég – eða a.m.k. með öðru hugarfari. Það gleymist nefnilega stundum að ef við viljum að íslenska verði töluð áfram á Íslandi verðum við að fá unga fólkið í lið með okkur. En það gerum við ekki með því að vera sífellt að gagnrýna það fyrir enskuslettur og annan ósóma sem við þykjumst finna í máli þess, heldur með jákvæðri hvatningu og hrósi fyrir það sem vel er gert. Ég hvet ykkur til að horfa á keppnina með jákvæðu hugarfari og hugsa um hversu stórkostlegt það er að við skulum eiga svona glæsilega unglinga sem hafa íslensku á valdi sínu og vilja nota hana – kannski ekki alveg sömu íslensku og við gamlingjarnir tölum, en íslenska er það samt.