Skrekkur

Undanfarin þrjú kvöld hef ég setið í Borgarleikhúsinu og horft á undankeppni Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Ástæðan er sú að í fyrra var ákveðið að taka upp sérstaka íslenskuviðurkenningu í keppninni, „Skrekkstunguna“, til að hvetja til skapandi og jákvæðrar málnotkunar og ég var beðinn um að taka sæti í dómnefnd – og svo aftur í ár. Þetta var einstaklega ánægjulegt starf og gaman að sjá hversu metnaðarfull, vönduð og fjölbreytt atriðin 24 voru. Þar var sannarlega að finna skapandi og jákvæða málnotkun, og líka dans, söng og gleði. En þarna var líka mikil alvara – fjallað m.a. um loftslagsbreytingar, símafíkn, einelti, ofbeldi, kynferðislega misnotkun, sjálfsvíg og mikilvægi samkenndar og inngildingar.

Mér fannst fara meira fyrir íslensku en í keppninni í fyrra og skilst að þá hafi hún verið meira áberandi en árin á undan – vonandi er það fyrir áhrif þessarar viðurkenningar. Dómnefndin hittist á morgun til að velja sigurvegara, sem verður að sjálfsögðu ekki tilkynntur fyrr en á úrslitakvöldinu 13. nóvember. Nokkur atriði koma til greina og valið verður ekki auðvelt en ég er ekki í vafa um að nefndin kemst að niðurstöðu sem hún getur verið stolt af – eins og auðvitað skólinn sem ber sigur úr býtum. Ég hvet ykkur til að horfa á útsendingu frá úrslitakeppninni í Ríkissjónvarpinu á mánudagskvöld, en í millitíðinni getið þið skemmt ykkur við upptökur frá undankeppninni og sannfærst um að unglingarnir eru ekki á leið með íslenskuna í hundana.